7.1 Kapernaúm: Sjá athugagrein við 4.23.

7.2 Hundraðshöfðingi: Rómverskur liðsforingi, sem þjálfaði og stýrði sveit hundrað hermanna, sem voru reiðubúnir að berjast að skipun hans – og falla. Þar sem þessir atburðir áttu sér stað í Galíleu má vera að þessi maður hafi verið foringi í herliði Heródesar Antípasar.

7.3 öldunga Gyðinga: Þeir voru líklega velmetnir Gyðingar, en samstarfsmenn rómversku valdhafanna í Kapernaúm.

7.5 hefur reist samkunduna: Gríska orðið yfir samkunduhús er “sýnagóga” (sjá athugagrein við 4.15) Fornleifafræðingar hafa í síðustu árum rannsakað rústir samkundunnar í Karpernaúm. Hún var upphaflega íbúðarhús sem breytt var í fundastað. Á sama grunni var síðar byggt fullbúið samkunduhús. Gyðingar hófu að reisa slík hús á 2. öldinni e. Kr.

7.11 Nain: Lítill bær í Suður-Galíleu.

7.12 bera út látinn mann: Venjulega báru Gyðingar sína dauðu til grafar á sjálfan dánardaginn. Fjölskylda hins látna réði oft syrgjendur að útförinni. Nokkrum klukkustundum áður en sá dáni var lagður til hinstu hvílu byrjuðu fjölskylda hans, nágrannar, venslafólk og þessir atvinnu-syrgjendur að veina og stynja. Ósjaldan barði fólkið sér á brjóst og reif klæði sín til þess að tjá sorgina. Þessu fór fram á meðan líkið var borið að gröfinni. (Sjá 1Mós 37.34; 5Mós 34.8; 1Sam 31.13).

7.14,15 hann…snart líkbörurnar…gaf hann móður hans: Viðstaddir hafa minnst Elía spámanns sem með krafti Guðs reisti son ekkju frá dauðum (1Kon 17.8-24). Guðspjöllin greina frá tveimur öðrum sem Jesús lífgaði: dóttur Jaírusar (Lúk 8.40-56) og Lasarusi (Jóh 11.38-44).

 7.20 Jóhannes skírari: Sjá athugagrein við 1.13.

 7.22 líkþráir: Sjá athugagrein við 4.27.

 7.27 Ég sendi sendiboða minn: Jóhannes er af Guði sendur (2Mós 23.20; Mal 3.1) til þess að ryðja Jesú braut.

7.29,30 tollheimtumenn…farísear og lögvitringar: Sjá athugagreinar við 3.12 (tollheimtumenn) og 5.17 (farísear og lögvitringar). Sjá og Matt 21.32; Lúk 3.12.

7.32-34 börnum sem á torgi sitja: Jesús lýsir sumu af fólkinu og leiðtogum þess svo, að það minni á krakka að kýta. Sumir vilja ærslaleik en aðrir heldur herma eftir syrgjendum. Merkingin í orðunum er sú, að ýmsir hafi ekki viljað þýðast Jóhannes af því að þeim þótti hann of strangur, og ekki fylgja Jesú af því að þeim fannst hann of linur.

7.35 spekinnar: Þeir sem bjuggu yfir visku voru í miklum metum meðal Gyðinga. Lögmál Drottins var talið búa yfir sannri speki (Slm 19.8). Hér heldur Jesús því fram, að spekin lýsi sér í því góða sem við gerum fyrir aðra. Sjá “Spekin”.

7.36 Farísei: Sjá athugagrein við 5.17.

7.36 settist til borðs: Við sérstök tækifæri fóru Gyðingar að sið Grikkja og Rómverja og lágu til borðs á vinstri hlið og borðuðu með hægri hendi. Jesús var hugsanlega í þessum stellingum þegar konan vætti fætur hans með tárum sínum (7.38).

7.37 alabastursbuðk með smyrslum: Alabastur er glært afbrigði af gifsi.

7.39 hvílík sú kona er sem snertir hann: Ekki er ljóst hvað faríseinn hafði á móti konunni. Samkvæmt lögum Gyðinga varð sá óhreinn sem snerti syndara og mátti una því að verða útskúfaður frá mannfélaginu. Símon var farísei og reyndi í lengstu lög á komast hjá því að komast í snertingu við nokkurn þann sem gæti óhreinkað hann. Hann furðaði sig þess vegna á því að Jesús skyldi leyfa konunni að koma við sig.

7.41 skuldugir: Sjá “Víxlararnir í musterinu”.

7.41 denara: Einn denar jafngilti daglaunum verkamanns (sjá Matt 20.9).

7.44-46 vætti fætur mína…Ekki gafst þú mér koss…Ekki smurðir þú höfuð mitt: Gyðingar höfðu gestrisni í hávegum. Í henni fólst meðal annars að bjóða fram vatn til þess að komumaður gæti þvegið sér um fæturna, því að flestir gengu berfættir eða voru að öðrum kosti í ilskóm (bandaskóm). Þá var heilsað með kossi á vangann og oft var olífu-olíu hellt á höfuð gestinum.

7.50 frelsað: Eða “læknað.” Gríska orðið getur merkt hvort tveggja.