Fólk flykktist til Jerúsalem á páskum og fleiri trúarhátíðum.  Einn þáttur guðsdýrkunarinnar þar fólst í því að skepnum var fórnað og korngjafir færðar Guði.  Hinar ýmsu fórnir útheimtu mismunandi dýrategundir (sjá 3Mós 3.1-13; 14.10,21; 4Mós 28.16-25).  Þeir sem í þessu skyni seldu fugla og ferfætlinga settu upp stíur og búr í forgarði heiðingjanna, sem svo var kallaður.  Það var eini staðurinn í musterinu þar sem heiðingjum (fólki, sem ekki var gyðingatrúar) var leyft að stíga fæti og þess vegna settu víxlarar borð sín þar niður og þar gátu gyðingar, sem voru  langt að komnir, skipt peningum sínum í þá mynt sem notuð var í musterinu.  Þessu fé varði fólkið til þess að greiða hinn árlega musteristoll.

Stundum lágu víxlararnir á því lúalagi að snuða fólkið með því að fá því ekki aftur jafnvirði þess fjár sem það hafði afhent þeim til þess að skipta í musterispeninga.  Jesús sakaði þessa kaupmenn og víxlara um að þeir væru ekkert annað en ræningjar.  Hann ítrekaði líka það, sem Amos spámaður hafði haldið fram átta öldum fyrr:  að fórnir skiptu sýnu minna máli en réttlæti og sanngirni í annarra garð (sjá Amos 5.21-24). Æðstu prestarnir og aðrir embættismenn musterisins, ásamt með fjölskyldum þeirra, höfðu lifibrauð sitt af þessum viðskiptum í musterinu.  Þeim mislíkaði því mjög að Jesús skyldi gagnrýna athæfi þeirra.

Myndtexti:

Kristur rekur víxlarana út úr musterinu.  Olíumálverk eftir El Greco.  Málarinn, sem einnig var myndhöggvari, fæddist á Krít en bjó lengst af í Tóledó á Spáni.  Hann málaði altaristöflur og margar myndir af atburðum Biblíunnar.  Myndin hér að ofan er ein þeirra (sjá 21.12-17). Myndin er í eigu National Gallery í London og er birt með Creative Commons leyfi.