18.2 djöfla: Illir, óhreinir andar, sem fylgja Satan að málum og ganga erinda hans. Sjá athugagrein við 2.10 (Djöfullinn).

18.3 lostavíni saurlífis síns: Hér er vínið tákn um makt og mikið veldi Rómar, sem gékk í augun á fólki og dró það til sín. Þennan áhrifamátt notaði heimsveldið til þess að stjórna þegnum sínum. Menn létu glepjast af hernaðarmætti og ríkidæmi Rómar, líkt og þegar fólk verður drukkið af víni og glatar dómgreind sinni.

18.4 syndum: Sjá athugagrein við 1.5 (Syndin).

18.11 kaupmenn jarðarinnar gráta: Rómverska heimsveldið réði skipahöfnum og þjóðleiðum landanna í kringum Miðjarðarhafið. Kaupmenn urðu að fara að rómverskum lögum og gjalda yfirvöldunum skatt. Þar á móti nutu þeir verndar valdstjórnarinnar, sem tryggði þeim mjög ákjósanlega aðstöðu til þess að stunda viðskipti sín.

18.13 ilmjurtir…reykelsi: Myrra heitir viðarkvoða út hitabeltistrjám, sem notuð er sem ilmefni. Hún er unnin úr runnagróðri í Arabíu og Afríku, dökkrauð á litinn, lyktar mikið og er beisk á bragðið. Myrra var mulin í salla, sem notaður var til þess að búa til dýr smyrsl og ilmvötn. Reykelsi er hvítt kvoðukennt efni, sem verður til í vissum trjátegundum í Arabíu. Úr þessu er framleitt verðmætt, ilmandi duft sem notað var í helgihaldi Gyðinga (2Mós 30: 34-38).

18.13 þræla og mannslíf: Rómverjar hnepptu í þrældóm fólk þeirra þjóða, sem þeir lögðu undir sig. Margt af þessu ánauðuga fólki fluttu þeir með sér til Rómar og létu það ganga um beina við hirð keisarans og á heimilum auðmanna. Á fyrstu öldinni eftir Krist voru þrælar nær helmingur allra íbúa Rómaborgar. Orðið „mannslíf“ kann hér að merkja þá ólánssömu menn, sem var gert að berjast hverjum við annan ellegar þá við villidýr á leikvöngum borgarinnar, fyrirfólki Rómar og öðrum þegnum til dægradvalar. Sjá „Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú“.

18.16 purpura og skarlati: Sjá athugagrein við 17.14.

18.20 postular og spámenn: „Postular“ merkir hér þá, sem kosnir hafa verið af Guði til þess að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist. Postular eru þeir tólf, sem Jesús valdi úr lærisveinahópnum og nefndir eru á nafn í guðspjöllunum, en einnig mikilhæfir prédikarar og kennarar á borð við t.d. Pál postula. Sjá athugagrein við 10.7 (spámönnunum).

18.21 mikinn kvarnarstein: Hér er átt við myllustein, sem notaður var til þess að mala korn. Sé slíkum steini, níðþungum, varpað í sjóinn, mun hann óðara sökkva til botns og eins verða endalok Rómar óvænat og skyndileg.

18.23 af töfrum þínum: Misbeiting valdsins í Rómaborg. Sjá athugagreinar við 9.21 (töfrum) og 18.3 (lostavíni saurlífis).

18.24 blóð…heilagra: Sjá athugagrein við 17.6. Sjá og Jer 51.49.