11.1 Sjálfur er ég Ísraelsmaður…af ættkvísl Benjamíns: Sjá athugagrein við 1.1. Sál, sem var fyrsti konungur Ísraelsmanna, var líka af ættkvísl Benjamíns. Hún dró nafn af yngsta syni Jakobs (Ísraels).

11.2 Elía: Meira en 800 árum áður en Jesús var í heiminn borinn barðist spámaðurinn Elía gegn hjáguðadýrkun, einkum þó tilbeiðslu kanverska goðsins Baal. Sjá og 1Kon 19.10-18.

11.7 Það sem Ísrael keppir eftir…útvöldum hlotnaðist það: Fæstir Gyðingar trúðu því að Jesús væri Messías (hinn smurði – útvaldi) Drottins.

11.12 fall þeirra…og ófarir: Ísraelsmenn höfnuðu Jesú, hinum útvalda Drottins (Messíasi).

11.13 heiðingjar…postuli: Sjá athugagrein við 1.16 (heiðingjar) og 1.1 (postuli).

11.16 deigið…rótin: Páll bregður upp tveimur líkingum, sem eiga að sýna að sé hluti af heild heilagur, þá er heildin öll það einnig. Sjá og 4Mós 15.17-21. Fyrstu lærisveinar Jesú voru Gyðingar (hlutinn) og urðu til þess að heiðingjunum (heildinni) féll heilagleiki í skaut með því að þeir urðu kristnir.

11.17 villiolíuviður: „Græða“ má greinar eða lauf einnar plöntu á aðra. Þessi aðferð hefur lengi verið við lýði í því skyni að kynbæta jurtir og tré og auka frjósemi þeirra. Páll líkir hér heiðingjunum við greinar sem skornar hafa verið af hagajurt og græddar við garðplöntu. Samkvæmt líkingunni eru Ísraelsmenn ræktaður olíuviður og hafa utanaðkomandi greinar (heiðingjarnir) verið græddir á hann. Upp frá því táknar olíuviðurinn allan Guðs lýð.

11.19 Greinarnar: Páll á við þá í Ísrael sem ekki trúðu Jesú né treystu Guði. Hann varar við því að Guð kunni líka að höggva af stofninum heiðingja (greinar) sem falla frá.

11.25 Nokkur hluti Ísraels…heiðingjar: Sjá athugagrein við 2.9,10. Guð hefur gefið heiðingjum kost á að tilheyra sínum lýð, meðfram af því að sumir gyðingar þverskölluðust við að gefa gaum að Drottni.

11.26 Síon: Sjá athugagrein við 9.33.

11.28 útvalningar…elskaðir sakir forfeðranna: Ísraelsþjóðin er oft nefnd „Guðs útvalda þjóð“ af því að Guð útvaldi Abraham og afkvæmi hans til þess að allar ættkvíslir jarðarinnar skyldu af honum blessun hljóta (1Mós 12.1-3). Sjá og athugagreinar við 2.9,10 og 3.2.

11.36 Amen: Orðið er hebreska og þýðir „áreiðanlegt, sannleikanum samkvæmt.“ Það er líka notað í merkingunni „já, það er vissulega svo“ eða „svo skal verða.“ Jesús notar orðið, þegar hann segir: Sannlega, sannlega segi ég yður…. Það er og mjög oft haft í lok bænar (sbr. Faðir vor).