5.5 ljóssins…dagsins…nóttunni…myrkrinu: Víða í Biblíunni táknar ljósið Guð eða Guðs orð (Jóh 1.3,4; 1Jóh 1.5; Slm 119.105), en auk þess fólk og viðburði sem birta sannleika Guðs (Jes 49.6). Lærisveinar Jesú og meðhaldsmenn eru stundum nefndir „börn ljóssins“ (Róm 12.36; Ef 5.8).

Myrkrið táknar þjáningu, eymd (Slm 107.10), heimsku og ráðleysi (Préd 2.14). Andstæðingar Guðs eru kallaðir „heimsdrottnar myrkursins“ (Ef 6.12) og þeim sem ekki gjöra vilja hans kann að verða „varpað í ystu myrkur“ (Matt 22.13).

5.8 frelsun: Sjá athugagrein við 1.10 (frelsa okkur frá hinni komandi reiði).

5.9 Drottins vors Jesú Krists: Sjá athugagrein við 2Þess 1.1 (Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi).

5.19,20 Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð: Í 1Kor 12-14 telur Páll upp gjafir heilags anda. Sjá „Gáfur andans„.

5.21 Prófið allt: Páll gékk þess ekki dulinn, að kristnir menn voru ekki einir um það að telja sig fá vitranir og boð frá Guði. Því var áríðandi að safnaðarfólkið athugaði, hvort það sem því var sagt, rímaði við kenningu Páls; að öðrum kosti skyldi því hafnað.

5.23 friðarins…andi yðar, sál og líkami: Biblíuleg merking orðsins „friður“ er ekki aðeins „frávera illinda“ eða „rósemi hugans“, heldur umfram allt „réttlæti, frelsi og vinátta.“

Friður er fullkomið réttlæti og sátt, velferð og sálarheill alls mannfélagsins í samhljóðan við Guðs góða og náðuga vilja.

5.26 Heilsið…með heilögum kossi: Hjá Gyðingum var kossinn tákn vináttu og virðingar. Líkur benda til þess, að hann hafi þegar í upphafi verið kærleikskveðja kristinna manna. Kossinn varð síðar hluti af guðsþjónustunni (litúrgíunni), svonefndur friðarkoss, gefinn áður en kvöldmáltíðarsakramentisins er neytt.