18.1 lækinn Kedron: Kedrondalur er austan við musterishæðina í Jerúsalem. Hinum megin dalsins er Olíufjallið. Við rætur þess mun hafa verið hvirfing olífutrjáa, sem samstofna guðspjöllin nefna Getsemane. Ekki er lengur vitað nákvæmlega, hvar þessi garður var. (Mrk 14.32; Matt 26.36; Lúk 21.27).

Sakaría spámaður segir að Drottinn muni birtast á Olíufjallinu og bera sigurorð af óvinum sínum (14.1-4). Muni Olíufjallið þá klofna í miðju. Á þessum stað er Jesús handtekinn af mótstöðumönnum sínum.

18.1 grasgarður: Á grískunni “kepos” sem venjulega er þýtt með “garður” þó hér hafi líklega verið um hvirfingu olífutrjáa að ræða.

18.2 Júdas…lærisveinar: Sjá nánar um “lærisveina” í athugagrein við 6.67. Sjá og athugagreinar við 6.70,71 og 12.4 (Júdas Ískaríot).

18.3-5 flokk hermanna…Jesú frá Nasaret: Rómverski herinn hafði aðsetur í Antoníusar-kastalanum steinsnar frá musterinu í Jerúsalem. Hlutverk hersins var að halda uppi reglu í borginni. Æðstu prestarnir og farísearnir kunna að hafa talið hermennina á að handtaka Jesú þar eð hann væri hættulegur upphlaupsmaður. Sjá athugagreinar við 7.32 (æðstu prestar…þjóna) og 1.24 (farísear).

18.3-5 Ég er hann: Sjá athugagrein við 6.20 og “Ég er”.

18.10 Símon Pétur…Malkus: Sjá athugagrein við 1.42. “Sverð” Péturs hefur trúlega verið rýtingur, sem fela mátti innan klæða. Nafnið Malkus þýðir “konungur.” Malkus kann að hafa verið frá Nabateu í Arabíu gömlu. Hann hefur verið í þjónustu Kaífasar æðsta prests, en ekki er vitað hver verkahringur hans var.

18.11 drekka kaleikinn: Kaleikur (bikar) er sums staðar í Biblíunni tákn þjáningar. “Að drekka kaleikinn” merkir þá að þjást. Sjá og athugagrein við 4.34.

18.12 foringinn og varðmenn Gyðinga: Rómverski liðsforinginn hafði yfir 1000 hermönnum að segja. Sjá athugagrein við 7.32 (þjónar).

18.13 Annasar…tengdafaðir Kaífasar: Annas var æðsti prestur Gyðinga þegar Jesús var barn að aldri. Þegar hann var neyddur til þess að láta af embætti skipuðu Rómverjar syni hans og tengdason, Kaífas, í hans stað. Þrátt fyrir þetta hélt Annas áfram nafnbótinni æðsti prestur. Í stærri málum leituðu menn ráða hjá honum, eins og t.d. um það hvað gera skyldi við Jesú. Sjá athugagrein við 11.49 (Kaífas).

18.15 Símon Pétur…annar lærisveinn: Sjá athugagrein við 1.42 (Símon Pétur). Hinn lærisveinninn, sem hættir lífi sínu með því að fylgja Jesú til Annasar æðsta prests, er trúlega “lærisveinninn sem Jesús elskaði” (sjá athugagrein við 13.23), sá sami og stóð hjá krossi hans (19.25-27) og kom með Pétri að gröfinni á páskadagsmorgun (20.1-10).

18.15 hallargarð æðsta prestsins: Þeir Annas og Kaífas bjuggu að sögn ofan til í Jerúsalem ekki fjarri musterinu.

18.18 varðmennirnir: Sjá athugagrein við 7.32.

18.19 æðsti presturinn: Sjá athugagreinar við 18.13 og 11.49. Í samstofna guðspjöllunum þremur á Jesús að hafa verið færður fyrir æðsta prestinn og öldungaráðið (sjá Matt 26.57-68; Lúk 22.66-71; Mrk 14.55-65).

18.20 samkundunni: Sjá athugagreinar við 9.34 og 6.59 og “Samkundurnar“.

18.24 sendi Annas hann…til Kaífasar æðsta prests: Sjá athugagrein við 8.13. Hér er svo að sjá, að Annas hafi yfirheyrt Jesú (18.19) þótt sjálfur væri hann ekki æðsti presturinn.

18.27 Aftur neitaði Pétur: Hér afneitar Pétur Jesú hinu þriðja sinni (13.38).

18.28 hallar landshöfðingjans: Lögheimili Pílatusar var í hafnarborginni Sesareu við Miðjarðarhafið. Þegar hann var á ferðinni í Jerúsalem dvaldi hann í Antoníusar-kastalanum, þaðan sem sá yfir musterissvæðið úr norðvestri.

18.31 Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi: Allar líkur benda til þess að Rómverjar hafi ekki heimilað Gyðingum að taka menn af lífi, nema þeir reyndust sannir að sök.

18.33 konungur Gyðinga: Hefði Jesús gert tilkall til konungsnafns, jafngilti það uppreisnartilburðum. Þá mundu Rómverjar draga hann fyrir dóm, sekja hann og lífláta á krossi.

18.36 Mitt ríki er ekki af þessum heimi: Sjá athugagrein við 3.3.

18.40 Barrabas var ræningi: Hryðjuverkamenn efndu til skemmdarverka og upphlaupa móti Rómverjum í þeim tilgangi að afla Gyðingaþjóðinni sjálfstæðis.