Kveðja

Öldungurinn (sjá og 2Jóh 1) heilsar elskuðum vini sínum, Gajusi.  Hann biður þess, að Gajusi vegni vel í öllu, hann sé heill heilsu og honum líði vel.  Hann hrósar Gajusi fyrir kærleika hans og trúnað við sannleikann.

 1 Öldungurinn:  Sjá athugagrein við 2Jóh 1.

Gajusi:  Lærisveinn Jesú sem hafði orð fyrir að vera trúr sannleikanum um hann.  Vera má, að bréfritarinn („öldungurinn“) hafi orðið til þess að Gajus snerist til hlýðni við trúna á Krist.  Hann hrósar Gajusi fyrir það, að hann hafi tekið vel á móti aðvífandi prédikurum fagnaðarerindisins og hvatt aðra í söfnuðinum til þess að gjöra slíkt hið saman.

Gajus var algengt nafn í Rómaveldi.  Nokkrir menn í Nýja testamenti heita svo (Post 19.21;  Róm 16.23;  1Kor 1.14). Þó er ólíklegt, að einhver þeirra sé sá Gajus, sem hér um ræðir.

3  hve trúr þú ert sannleikanum:   Gajus var „trúr sannleikanum“ af því að hann treysti því, að Jesús væri sonur Guðs, Messías, „hinn smurði, hinn útvaldi.“   Sá sannleikur var í andstöðu við þá villukenningu, að Jesús hefði ekki verið raunverulegur maður og ekki heldur sonur Guðs (sjá 1Jóh 2.18-23; 4.1-3; 2Jóh 7). Sjá og „Sannleikurinn“ á bls. 1992.

4  börnin mín:  Fólkið sem bréfritari hefur leitt til trúar á Krist.  Sjá og athugagrein við 1Jóh 2.1.

6  greiða för þeirra:  Styðja þá í því ætlunarverki að boða fagnaðarerindið um Jesú (8).

9  safnaðarins:   Gríska orðið, sem hér er þýtt á íslensku með „söfnuður“ er ekklesía.  Upphafleg merking þess er sérhver „samkoma fólks.“  Orðið kirkja getur verið haft um gjörvalla kristnina í heiminum (kirkja Krists), hvern einstakan söfnuð, og loks um kirkjuhús.  Sjá nánar „Kirkja„.

Díótrefes:  Hans er hvergi getið annars staðar í Nýja testamenti.  Díótrefes hefur verið í sama söfnuði og Gajus.  Hann hafði dreift um bréfritarann álygum og rógi (9) og neitað að veita viðtöku kristnum bræðrum á hans á vegum (10).

11   Sjá 1Jóh 3.11-18;  2Jóh 5,6.

12  Demetríus:   Öldungurinn hrósar Demetríusi fyrir sanna og áreiðanlega kenningu hans um Krist. Annars Demetríusar er getið í Postulasögunni; sá var silfursmiður (Post 19.23-41).