14.1 samkundu Gyðinga: Sjá athugagrein við 9.20.

14.1 Íkóníum: Mikil verslunarborg í Galatíu í Litlu-Asíu, um 16o km austur af Antíokkíu í Pisidíu. Þjóðbrautir frá Sýrlandi til Efesus og Rómaborgar lágu um Íkóníum.

14.5 Heiðingjar og Gyðingar…gerðu þá samblástur: Hið sama bar til í Antíokkíu (13.50).

14.6-7 Lýstru og Derbe í Lýkaóníu: Lýkaónía var landssvæði í Galatíu. Það var austan við héraðið Pisidíu og fyrir norðan Tárosfjöll. Lýstra var um 32 km í dauðvestur frá Íkóníum, en Derbe um 95 km suðaustur af Lýstru.

14.12 Seif…Hermes: Seifur var æðstur guða með Grikkjum og Rómverjum. Honum hafði verið reist hof í Lýstru (14.13). Hermes var boðberi guðanna og sálnahirðir. Menn líktu Páli við hann, af því að hann hafði að jafnaði orð fyrir þeim félögum.

14.14 rifu þeir klæði sín: Með því sýndu menn djúpa hryggð, t.d. við dánarfregn, – eða reiði.

14.15 til lifanda Guðs: Páll á við Guð Ísraels (sjá 2Mós 20.11; Slm 146.6). Guðir á borð við Seif, sem eru helber hugarsmíð, verða undir í samanburði við hinn lifanda Guð.

Mikilvægur fundur í Jerúsalem

Staddir enn í Antíokkíu, rökræða þeir Páll og Barnabas við lærisveina sem komnir eru þangað frá Júdeu. Þessir lærisveinar standa á því fastar en fótunum, að karlmenn úr röðum heiðingja beri að umskera samkvæmt lögmáli Móse, áður en þeir verði taldir tækir í lærisveinahópinn. Þetta verður til þess að blásið er til fundar í Jerúsalem, þar sem leiðtogar hinnar nýju hreyfingar ræða um það, hver eigi að vera skilyrði þess, að menn fái að heyra til hinum nýja Guðs lýð.

14.19 Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum: Þetta hafa líklegast verið þeir hinir sömu og gerðu Páli og Barnabasi lífið leitt í nefnum borgum (13.50; 14.5).

14.21 fagnaðarerindið: Sjá athugagrein við 5.42

14.21 Derbe…Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu: Þótt Gyðingar í þessum borgum hefðu áður brugðist illa við heimsóknum þeirra Páls og Barnabasar, skorti hina síðarnefndu ekki hugrekki til þess að fara þangað aftur og uppörva nýja lærisveina Jesú.

14.22 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 1.3.

14.23 með föstum: Sjá athugagrein við 13.2.

14.24 Pisidíu…til Pamfýlíu: Pisidía var landsvæði í héraðinu Galatíu. Þar var borgin Antíokkía. Pamfýlía var suðaustur af Pisidíu, nokkru minni um sig.

14.25,26 Perge…Attalíu…Antíokkíu: Sjá athugagrein við 13.13 (Perge). Attalía var hafnarbær við strönd Pamfýlíu. Sjá og athugagrein við 6.5 (Antíokkía).