8.1 Þá er að minnast á kjötið: Hér heldur Páll áfram að svara spurningunum, sem safnaðarmenn í Korintu báru upp við hann í bréfi, sem þeir skrifuðu honum. Sjá athugagrein við 7.1.

8.1 kjötið sem fórnað hefur verið skurðgoðum: Í fornöld bjuggu menn sér til goðamyndir og tilbáðu þær. Þessum skurðgoðum voru færðar fórnir, matföng margs konar og jarðargróði. Slátrarar tileinkuðu kjötafurðir sínar þessum hjáguðinum eða hinum og viðskiptavinirnir fóru með þetta í hofin og færðu að fórnargjöf. Fyrst ekkert er að marka afguði, segir Páll, þá skaðar það engan að leggja sér þetta fórnarkjöt til munns. Allt um það fannst sumum lærisveinum ótækt að gera svo, þar sem utanaðkomandi mundu halda að með því væru þeir að samsinna skurðgoðadýrkun.

8.5 á himni: Í Biblíunni er himinninn staðurinn þar sem Guð á heima og ræður ríkjum. Jesús talar oft um það að einn dag í framtíð muni ríki Guðs muni koma í fyllingu sinni. Hinum trúu verður umbunað með því að þeir fá að verða þegnar í Guðs ríki.

8.6 Guð, föðurinn: Sjá athugagrein við 1.3 (Guði, föður vorum).

8.6 Drottin, Jesú Krist, sem allt varð til fyrir: Sjá athugagreinar við 1.3 (Drottni Jesú Krists). Samkvæmt kristinni trú er Jesús sonur Guðs, var til frá upphafi og viðstaddur sköpun heimsins, ásamt heilögum anda (Jóh 1.2,3).

8.7 eta sumir kjötið enn sem fórnarkjöt: Heiðingjar í Korintuborg höfðu drukkið það í sig með móðurmjólkinni að skurðgoð væru lifandi, guðlegar andaverur. Þeim fannst þeir þvíbregðast Guði, föður Jesús Krists, ef þeir lögðu sér fórnarkjöt til munns. Sjá og athugagrein við 6.13.

8.10 sjái þig…sitja til borðs í goðahofi: Sumir lærisveinanna í Korintu kunna að hafa verið boðnir í átveislur í hofum borgarinnar. Ekki er ólíklegt að þar hafi verið á borðum fórnarkjöt. Páll segir lesendum sínum að ekkert sé athugavert við þennan kost og þótt menn neyti hans þýði það ekki að þeir trúi á skurðgoð. En valdi þetta mataræði einhverjum lærisveini samviskubiti, þótt hann vilji samt sem áður fara að fordæmi annarra og styrkari bræðra, sem kjötið eta, þá er betra að láta það eiga sig. Annars eiga menn á hættu að verða þess valdandi, að meðbróðir breyti gegn samvisku sinni og syndgi þar með.