Höfundur uppörvar Tímóteus og leggur honum lífsreglurnar
Páll minnir á, að hann sé postuli Krists, heilsar Tímóteusi ástúðlega og segir hann vera sem elskað barn sitt. Hann rifjar upp tildrög þess að Tímóteus varð lærisveinn Krists og hvetur hann til þess að halda ásamt sér fast við „vitnisburðinum um Drottin“, hvað sem annars kann að koma upp á. Eins og góðum lærisveini sæmir, á Tímóteus að kenna safnaðarfólki sínu það, sem Páll kenndi honum, forðast vanheilagt hégómatal og einskis nýtar þrætur og flýja girndir æskunnar.
* Páll, postuli …Tímóteusi: Páll gékk einnig undir hinu gyðingalega nafni sínu, Sál (Post 7.57-8.3; 9.1-30). Ungur var hann farísei, hlýðinn lögmáli Móse, og ofsótti kirkjuna (Fil 3.5,6). Hinn upprisni Kristur útvaldi hann postula sinn og fól honum að prédika fagnaðarerindið.(Post 9.1-19). Sjá „Páll (Sál) frá Tarsus„.
Postuli þýðir „sá sem sendur er“ til þess að reka erindi eða inna af hendi ákveðið verkefni í nafni þess, sem sendir. Jesús valdi tólf postula úr lærisveinahópnum, en auk þess nefndust postular aðrir trúboðar, eins og t.d. Páll, svo og ýmsir þeir, er sáu Jesú upprisinn (Lúk 24.33; Post 1.2,3). Jesús sendi postulana tólf til þess að prédika fagnaðarerindið öllum þjóðum og kenna þeim að halda allt það, sem hann hann hafði boðið þeim (Matt 28.18; Post 1.8).
Tímóteus var með Páli á kristniboðsferðum hans (Post 16.1-3) og minnist Páll á þennan góða samverkamann sinn í mörgum bréfanna í Nýja testamenti (2Kor 1.1; Þess 1.1; Flm 1). Sjá nánar innganginn að Fyrra Tímóteusarbréfi.
1.1 Páll, postuli: Sjá athugagrein um Pál postula.
1.1 fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú: Fyrirheiti (loforð) um eilíft líf Páli til handa og öllum þeim öðrum sem á Jesú trúa. Sjá og „Eilíft líf„.
1.2 Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum: Jesús kallaði Guð „föður“ (sjá t.d. Jóh 14) og sama gerir Páll í bréfum sínum (Róm 1.7; 1Kor 1.3; Gal 1.2,3).
Gríska orðið „Kristur“ þýðir „hinn smurði“, sem er á hebresku „Messías“ (hinn útvaldi). Sjá „Drottinn (notað um Jesú)„.
1.3 forfeður mínir: Páll var Gyðingur, afkomandi Ísraelsmanna.
1.5 Lóis ömmu þinni…Evnike móður þinni: Höfundur Postulasögunnar segir móður Tímóteusar hafa verið „trúaða konu af Gyðinga ætt“ (Post 16.1).
1.6 yfirlagningu handa minna: Sú háttsemi að „leggja hendur yfir“ var höfð við útvalningu manns til þess að taka að sér ákveðið starf, t.d. prédikun eða þjónustu (Post 6.6; 1Tím 5.22), eða þegar aðrar náðargjafir heilags anda voru gefnar (Post 8.17; 19.6). Nú á dögum, þegar menn eru með hátíðlegri athöfn kallaðir til sérstaks hlutverks í kirkjunni, heitir það „vígsla“.
1.8 Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn né fyrir mig, bandingja hans: Rómversk yfirvöld í skattlöndunum þar sem Páll og Tímóteus höfðu prédikað Krist voru farin að handtaka lærisveina hans. Sumir rómversku keisaranna gerðu tilkall til þess að vera tilbeðnir af þegnum sínum sem guðir væru og létu aukin heldur reisa musteri sér til dýrðar. Þá tóku þeir sér heiðurstitla á borð við „guðssonur,“ „drottinn“ og „frelsari.“ Flestir Gyðingar og kristnir menn neituðu að taka þátt í slíkri afguðadýrkun. Höfundur bréfsins hvetur Tímóteus til þess að bregða ekki trúnaði við Krist, jafnvel þótt hann þurfi að þola fyrir það illt.
1.8 fagnaðarerindisins: Fagnaðarerindið er hvort tveggja í senn kenning Jesú um Guðs ríki og frásögn lærisveina hans af því sem Jesús gerði. Þeir sem treysta Jesú og trúa gleðiboðskapnum verða lærisveinar hans og heyra til Guðs lýð.
1.9 Hann hefur frelsað okkur: Orðið „frelsun“ (hjálpræði) merkir í Biblíunni allt það sem Guð hefur gert og gerir enn til þess að leysa menn frá syndinni og hinu illa. Sjá og „Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“ og „Eilíft líf„.
1.9,10 Hann hefur frelsað okkur…leiddi í ljós líf og óforgengileika: Hér vitnar höfundur í sálm úr frumkirkjunni eða kristna trúarjátningu. Þegar Jesús afmáði dauðann, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og gaf fyrirheiti um eilíft líf, þá eignuðust mennirnir arfsvon í ríki Krists og Guðs.
1.10 leiddi í ljós líf: Víða í Biblíunni táknar ljósið Guð eða Guðs orð (Slm 119.105; 1Jóh 1.5), en auk þess fólk og viðburði sem leiða í ljós sannleika Guðs (Jes 49.6). Páll ræðir líka um „ljósið frá fagnaðarerindinu“ (2Kor 4.4). Í Fyrsta Jóhannesarbréfi er talað um „að ganga í ljósinu“ (I Jóh 1.7). Sjá athugagrein við 1.8 (fagnaðarerindisins).
1.14 hið góða…heilags anda: Hið góða er boðskapurinn um Krist, sem Tímóteus hefur af Páli numið. Heilagur andi hjálpar lýð Guðs og kennir honum, svo að hann fái lifað Guði velþóknanlegu lífi. Sjá „Heilagur andi„.
1.15 allir Asíumenn sneru við mér bakinu: Asía var það hérað kallað á dögum Páls, sem var vesturhluti Tyrklands, sem nú heitir. Páll nefndi í bréfi þær þrengingar sem hann mátti þola í Efesus (2Kor 1.8). Talið er, að hann hafi verið pyndaður og honum hótað lífláti. Sjá og Post 20.17-19.
1.15 Fýgelus og Hermogenes: Þessir eru hvergi annars staðar nefndir í Nýja testamenti, svo að ekki er ljóst, af hverju sundurþykki Páls og þeirra stafaði.
1.16 Ónesífórusar: Ónesífórus eru nefndur tvisvar í bréfinu (4.19), en ekki annars staðar í Nýja testamenti. Hann hefur verið í Efesus um leið og Páll og Tímóteus (1Kor 16.8-10).