2.1 fremur hið sama: Það er vandalaust að dæma aðra menn og saka þá um illvirki, en Páll minnir lesendur sína á að flestum vaxa mest í augum þær syndir annarra, sem þeim er sjálfum hættast við að drýgja.

2.5 Guð birtir réttlátan dóm sinn: Víða í heilagri ritningu er minnst á þann dag í framtíð, þegar Guð mun dæma þjóðirnar (sjá Slm 9; Préd 3.17; Matt 25.31-46; Jóh 3.18; 1Pét 2.12). Þeim trúu verður þá umbunað, en hinir hljóta makleg málagjöld sem snúa baki við Guði.

2.7 eilíft líf: Á dögum Jesú voru margir Gyðingar farnir að trúa á líf eftir dauðann. Töldu sumir, að það myndi verða ekki ólíkt jarðlífinu. En Páll ræðir hins vegar um nýtt líf með Kristi (6.4-8). Sjá og “Eilíft líf”.

2.9,10 Gyðingurinn fyrst en Grikkinn líka: Gyðingar eru afkomendur Abrahams ættföður og Söru, konu hans. Þeir voru og nefndir Ísraelsmenn. “Grikki” er hér samheiti fyrir alla þá, sem ekki eru Gyðingar (sbr. heiðingjar). Páll staðhæfir, að Guð fari ekki í manngreinarálit; hann elskar alla menn og sérhver réttlætist sem trúir.

2.12 lögmál: Lögmál Móse. Þar er skráð hversu Guð vill að menn hagi lífi sínu, hvernig þeir tilbiðji hann og komi fram hver við annan. Páll staðhæfir, að þeir sem hyggja að þeir réttlætist fyrir Guði með því að hlýða lögmálinu, muni verða dæmdir eftir því sama lögmáli.

2.14,15 gera…eftir eðlisboði…í hjörtum þeirra: Hér hefur Páll fyrir satt, að jafnvel þeir menn, sem aldrei hafa heyrt um lögmál Móse getið, skynji í “hjarta” sínu boðorð þess og viti muninn á réttu og röngu. Í þann tíð var almennt talið að innri maðurinn, hugsanir og fyrirætlanir, byggju í hjartanu.

2.15 ásaka þá eða afsaka: Synd er sérhvert brot mót orði Guðs og hans heilaga vilja. Fyrirgefning máir syndina út og gjörir hana að engu. Samkvæmt helgiritum Gyðinga öðlast syndarar fyrirgefningu, þegar þeir biðja Guð um hana og fela sig honum á hendur á ný. Páll fullyrðir, að það sé Jesús sem fyrirgefur syndirnar, enda hafi hann verið Guðs lambið, sem ber synd heimsins (3.25,26; Jóh 1.29). Þeir, sem ekki treysta Guði, munu gjalda þess (sjá athugagrein við 2.5) og ekki verða hluttakendur í fyrirheiti eilífs lífs.

2.25 Umskurn: Í Móselögum var kveðið svo á, að sveinbörn í Ísrael skyldi umskera (1Mós 17.9-14). Sjá “Umskurn”. Páll segir hér, að umskurn komi því aðeins að gagni að menn haldi lögmálið. Óhlýðnist þeir lögmálinu eru þeir ekki Gyðingar, jafnvel þótt umskornir séu (2.28).