Við umskurn er skorið framan af forhúð getnaðarlims á karlmanni. Þetta var algengur siður í Austurlöndum nær til forna, þótt ekki sé að fullu vitað hvers vegna svo var. Sumir telja, að blóð við umskurn hafi verið álitið búa yfir varnarmætti, eins og þegar Sippóra umskar son sinn til þess að bjarga lífi Móse (2Mós 4.24-26).

Í Biblíunni er umskurnar fyrst getið, þegar Guð hét að gera niðja Abrahams að mkilli þjóð og gefa þeim land til ævinlegrar eignar. Í staðinn skyldu Abraham og afkomendur hans hlýða Guði. Til sannindamerkis um að þeir héldu orð sín átti að umskera öll sveinbörn Ísraelsmanna (1Mós 17.1-14). Aukin heldur skyldi umskera útlenda menn, sem vildu heyra til Ísraelsþjóðinni (1Mós 34.21-24). Í lögmáli Móse var mælt fyrir um umskurn (3Mós 12.3). Nýja testamentið greinir frá því, að bæði Jóhannes skírari og Jesús hafi verið umskornir átta dögum eftir fæðingu (Lúk 1.59; 2.21).

Jeremía spámaður hélt því fram, að umskurnin ein nægði ekki til þess að maður teldist til Guðs lýðs, þar eð einnig aðrar þjóðir umskæru piltbörn sín. Mest væri um vert að tilbiðja Guð og þjóna honum. Hann sagði Júdamönnum, að þeir væru að vísu umskornir á líkamanum, en óumskornir á hjarta (Jer 9.25,26). Ennfremur sagði hann að Drottinn myndi gera nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn með því að leggja lögmál sitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra (Jer 31.31-34). Höfundur Hebreabréfsins í Nýja testamenti vitnar í orð Jeremía og segir Jesú Krist færa þennan nýjan sáttmála og komi hann í stað hins fyrri sáttmála sem byggður var á lögmálinu (Heb 8.1-13).

Í frumkirkjunni voru skiptar skoðanir á umskurninni. Sumum hinna gyðing-kristnu, sem áður höfðu lifað samkvæmt lögmáli Móse, fannst að bæði þeir sjálfir og heiðin-kristnir menn ættu undantekningarlaust að fara að lögum Gyðinga, siðum þeirra og erfðavenjum öllum, að umskurninni meðtalinni. (Post 11.1,2: 21.17-24). Aðrir, og einkum og sérílagi Páll postuli, voru þessu ósammála og töldu, að ónauðsynlegt væri að umskera þá heiðingja, sem létu skírast til nafns Jesú. Sjálfur hafði Páll verið umskorinn þegar hann var barn og verið enda mjög kappsfullur í lögmálshlýðni sinni (Fil 3.2-6). En síðar komst hann að þeirri niðurstöðu, að karlmenn, sem áður voru heiðnir, gætu tilheyrt hinum sanna Guðs lýð, jafnvel þótt þeir væru óumskornir. Páll hélt því fram, að því aðeins gerði umskurnin gagn, að menn gætu hlýtt lögmáli Móse gersamlega. Hlýddu menn ekki lögmálinu út í æsar, væru þeir ekki “sannir Gyðingar”, þótt umskornir væru. Eins og Jeremía taldi Páll að umskorinn væri sá einn sem væri það í hjarta sínu (Róm 2.25-29). Það nægir ekki að vinna öll verk lögmálsins; mennirnir eru Guði þóknanlegir þegar þeir trúa (Róm 3.28; Fil 3.7-9).