Hver er Jesús?

Þegar í 1. kapítula Jóhannesaguðspjalls má vera fullkomlega ljóst hver Jesús er. Fyrstu 14 versin eru sem sálmur, er lýsir því á ljóðrænan hátt að maðurinn Jesús sé Orðið. Jóhannes skírari og nokkrir fyrstu lærisveina Jesú segja hann vera lamb Guðs, Messías, lærimeistara og Guðs son.

* Ljós og myrkur: Bæði ljós og myrkur eru fyrirferðarmikil tákn í Jóhannesarguðspjalli. Guð skapaði ljósið fyrsta af öllu (1Mós 1.3). Víða í Biblíunni táknar ljósið Guð eða Guðs orð (1Jóh 1.5; Slm 119.105), en auk þess fólk og viðburði sem birta sannleika Guðs (Jes 49.6). Myrkrið táknar þjáningu, eymd (Slm 107.10) og heimsku (Préd 2.14). Andstæðingar Guðs eru kallaðir “heimsdrottnar myrkursins” (Ef 6.12) og þeim sem ekki gjöra vilja hans kann að verða “varpað í ystu myrkur” (Matt 22.13). Í Jóhannesarguðspjalli vísa andstæðurnar “ljós” og “myrkur” til baráttunnar á milli þeirra sem aðhyllast Jesú og hinna sem hafna trúnni á hann (sjá t.d. 1.19-21; 8.12-20).

* Jesú frá Nasaret, son Jósefs: Þeir Matteus og Lúkas guðspjallamenn segja Maríu hafa verið mey þegar hún varð þunguð að Jesú (Matt 1.18; Lúk 1.30-35). Jósef, maður hennar, var trésmiður frá Nasaret (Matt 1.18-2.23). Matteus rekur ættir Jesú (Matt 1.1-17) og segir það allra manna mál að Jósef hafi verið faðir Jesú.

Nasaret var lítið þorp á syðstu hæðum Galíleufjalla og blöstu þaðan við hinar miklu samgönguleiðir Palestínu. Þar sem búist var við að Messías yrði af ætt Davíðs konungs og heimabær hans var Betlehem í Júdeu efuðust ýmsir um það að Jesús frá Nasaret gæti verið hann (sjá t.d.1.46).

* Guðs lamb: Jóhannes skírari sagði að Jesús væri eins og lamb sem þegir þegar það er leitt til slátrunar (1.29; sjá og Jes 53.4-12) til þess að reisa við Guðs lýð. “Lambið” skírskotar líka til fórnarlambsins sem prestarnir slátruðu á páskahátíðinni (2.Mós 12), en sú hátíð var haldin árlega til þess að minnast brottfararinnar úr þrælahúsinu í Egyptalandi. Páll postuli á líka við Jesú, þegar hann ritar: “Páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur” (1Kor 5.7). Sjá og Róm 3.24,25; Heb 10.12-14; Opb 5.6-13).

1.1-3  Í upphafi var Orðið: Þessi orð minna á upphaf Fyrstu Mósebókar þar sem segir frá því er Guð skapaði heiminn.

Gríska orðið “logos” sem hér er þýtt á íslensku með “orð” getur líka merkt “vit” eða “tilgangur.”   Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) skapar Guð heiminn með atbeina Viskunnar (Okv 8.22,23).  Orðið birtir og kraft Guðs, sem skapar með því sem hann segir (sjá “Og Guð sagði” í 1Mós 1).  Í Jóh 1.1-3 er Orðið Jesús Kristur, sem flytur boðskap Guðs öllum þjóðum og birtir kraft hans og fyrirætlanir.  Í þessum versum kemur skýrt fram að þótt Guðs sonur sé fæddur í mannlegu holdi,  þá er hann jafnframt sannur Guð af því að hann hefur verið til hjá Guði frá öndverðu.

1.4,5 ljós…myrkur: Sjá nánar í orðtakasafni.

1.5  tók ekki á móti því: Eða “skildi það ekki.”

1.6  Jóhannes: Sjá “Jóhannes skírari” í orðtakasafni. Matt 3.1; Mrk 1.4; Lúk 3.1,2.

1.7 ljósið:  Hér er “ljósið” sama og Jesús. Sjá og 9. vers.

1.11 hans eigið fólk:   Jesús var Gyðingur.  Hann kom til þjóðar sinnar sem hinn útvaldi Drottins (Messías), en margir landa hans hvorki trúðu á hann né vildu þýðast boðskap hans.

1.12  Guðs börn: Þau sem treysta Jesú og vita að hann er hið sanna ljós Guðs.

1.14  Orðið varð hold:  Hold þýðir hér maður. Orðið hjá Guði varð maðurinn Jesús og sýndi okkur dýrð Guðs. Þessi atburður er oft nefndur “holdtekjan.”

1.14 sonurinn:   Jesús. Sjá “Guðs sonur” í orðtakasafni.

1.15 Jóhannes:   Sjá athugagrein við 1.6.  Sjá og 1.29,30.

1.16 náð á náð ofan:  Eða “eina náð í stað annarrar.”

1.17 Lögmálið var gefið með Móse:   Lögmál Móse kvað á um það hversu Ísraelsmenn skyldu haga lífi sínu og tilbiðja Guð. Jesús ætlaði sér ekki að nema lögmálið úr gildi, en hann vildi sýna hvernig fólk getur gætt líf sitt ríkulegu innihaldi “náðar og sannleika.”

1.19-20    ráðamenn…presta og Levíta:  Með “ráðamönnum” kann að vera átt við æðsta prestinn, sem var yfirmaður musterisins í Jerúsalem, áhrifamikla kennara svo sem faríseana og fleiri fyrirmenn.  Yfirvöldin í Róm höfðu fengið þessum leiðtogum völd í hendur, þó takmörkuð við sérmál Gyðinga og einkanlega trúarbrögð þeirra.  Sjá og “Prestar í Ísrael” í orðtakasafni.

1.19-20 Messías: Sjá “Messías (hinn útvaldi)” í orðtakasafni.

1.21 Elía: Sjá “Elía” í orðtakasafni. Sjá og Mal 4.5.

1.23 Jesaja:  Spámaður í Júda kringum 740 til 701 f. Kr. Sjá, Jes 40.3 (Septúaginta).

1.24farísea:  Flokkur guðrækinna Gyðinga sem leituðust við að hlýða lögmáli Móse út í æsar.  Sjá nánar í orðtakasafni.

1.26 Ég skíri með vatni:  Sjá “Skírn” í orðtakasafni.

1.27  skóþveng hans…leysa:  Það var í verkahring þjóna og þræla.

1.29 Guðs lamb:  Sjá í orðtakasafni.

1.32 andann:  Sjá “Heilagur andi” í orðtakasafni.

1.33skírir með heilögum anda:  Eins og Guð úthellti anda sínum yfir Jesú (1.32) mun Jesús gefa anda sinn þeim sem hafa hann að leiðtoga.

1.34  sonur Guðs:   Jóhannes fullyrðir að Guð hafi útvalið Jesú til þess að ríkja yfir Ísrael.  Sjá og “Guðs sonur” í orðtakasafni.

1.36  Guðs lamb:  Sjá í orðtakasafni.

1.40  Andrés: Hann var fiskimaður frá Betsaída og átti heima í Kapernaúm (Mrk 1.29) ásamt bróður sínum, Símoni Pétri.

1.41 Messías…Kristur:  Bæði Messías (á hebresku; sjá athugagrein við 1.19,20) og Kristur (á grísku) þýða “hinn smurði,” eða sá sem Guð hefur útvalið til þess að leiða lýð sinn.

1.42 Símon…Kefas, Pétur:  Bæði arameíska nafnið “Kefas” og gríska nafnið “Pétur” þýða “klettur.”

1.43-44 Galíleu…Betsaídu:  Galílea hét héraðið fyrir vestan ána Jórdan og Galíleuvatnið.  Betsaída var gyðingaþorp rétt austan við ána Jórdan á norðausturströnd Galíleuvatns.

1.45 Filippus…Natanael…Jósefs: Filippus var frá Betsaídu og trúlega kunnugur þeim Andrési og Símoni. Nafnið Natanael þýðir “Guðs gjöf.”  Hann sér að Jesús er Guðs sonur og konungur Ísraels (1.49). Sjá um son Jósefs í orðtakasafni.

1.45 lögmálinu…spámennirnir: Helgirit Gyðingar, sem kristnir menn kalla Gamla testamenti.

1.47  Ísraelíti:  Afkomandi Ísraels, en svo nefndi Guð Jakob (1Mós 27.36; 32.22-32).  Sjá og “Ísrael” í orðtakasafni.

1.51  engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn: Jakob dreymdi, að honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan stigann (1Mós 28.10-17).  Sjá og “Mannssonurinn” í orðtakasafni.