8.1-2 Júdeu og Samaríu: Sjá athugagrein við 1.8.

8.3 Sál: Hann átti eftir að verða mestur leiðtoga (postula) frumkirkjunnar. Eftir að hann varð lærisveinn Jesú hóf hann að nota gríska nafnið sitt, Páll. Sendibréf hans til safnaða og einstaklinga í löndunum umhverfis Miðjarðarhafið urðu drjúgur hluti Nýja testamentisins. Sjá nánar „Páll (Sál) frá Tarsus“. Sjá og Post 22.4,5; 23.6; 26.9-11. Sjá einnig Gal 1.13,14; Fil 3.5,6.

Fagnaðarerindið prédikað í Júdeu og Samaríu

 Lærisveinarnir taka að breiða út fagnaðarerindið í Júdeu og Samaríu og fara alla leið til Damaskus á Sýrlandi. Það segir frá Filippusi. Þá er og Páll kynntur til sögunnar. Líf hans gjörbreyttist þegar hann var á leið til Damaskus og ljós af himni leiftraði um hann og sjálfur Jesús ávarpaði hann. Upp frá því varð Páll hinn mikli „prédikari heiðingjanna.“

8.5 Filippus: Filippus var einn hinna sjö, sem kjörnir voru til forystu í frumkirkjunni (6.5).

8.5 höfuðborgar Samaríu: Samaría, sem áður hafði verið höfuðborg Ísraels (Norðurríkisins), var nú grískur staður og þar voru musteri til dýrðar gyðjunni Kóru og Ágústusi keisara. Sjá athugagrein við Lúk 9.52 (Samverjaþorp).

8.5 Krist: Sjá athugagrein við 2.36 (Drottinn og Kristur).

8.9 Símon…lagði stund á töfra: Töfrarnir fólust í því að vekja upp anda dauðra og spá fyrir fólki. Símon töframaður hefur bersýnilega trúað fagnaðarerindinu sem Filippus boðaði (8.13), en síðar hugðist hann kaupa sér gjöf Heilags (8.18,19). Þegar Pétur ávítaði hann fyrir þetta, baðst hann fyrirgefningar. Sjá og „Kraftaverk, töfrar og læknisdómar“.

8.12 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 1.3 (Guðs ríki).

8.17 lögðu þeir hendur yfir þá: Þetta atferli var viðhaft, þegar blessað var og læknað (Mrk 1.41; 10.16), ellegar einhver kjörinn til ákveðins starfa (Post 6.6; 1Tím 5.22) eða þegar náðargjafir Heilags anda voru gefnar mönnum (Post 19.6; 1Tím 4.14). Sjá og 1Mós 48.13-20).

8.20 Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú: Gríska orðið yfir „glötun“ er hér apóleia, og merkir stað hinnar algeru eyðileggingar. Sjá og athugagrein við Lúk 8.31 og „Helvíti„.

8.21 ekki einlægur í hjarta þínu: Til forna álitu menn, að hjartað væri það líffæri, þar sem sjálf mannsins, hugsanir og ásetningur ættu upptök sín.

8.26 engill Drottins: Sjá athugagrein við 5.19.

8.27 mann frá Eþíópíu…hirðmaður hjá…Kandake…settur yfir alla fjárhirslu hennar: Eþíópía hét í þann tíð héraðið við suðurhluta Nílarfljóts. Þessi embættismaður hafði á hendi fésýslu Kandake, en svo hét drottningarmóðirin, sem ábyrgðist daglegar skyldur konungsins.

8.28 Jesaja spámann: Spádómsbók Jesaja í Gamla testamenti (helgiritum Gyðinga).

8.29 vagni: Vagnar voru körfulaga farartæki á tveimur hjólum, dregin af hestum eða uxum.

8.40 Asdód…til Sesareu: Searea var um 65 km. norður af Asdód á strönd Miðjarðarhafsins. Heródes mikli nefndi borgina í höfuðið á Ágústusi keisara, sem sett hafði hann „leppkóng“ í Júdeu. Heródes, sem gat sér frægðarorð fyrir byggingaframkvæmdir, lét leggja vatnsleiðslu og reisa virki í Sesareu, auk þess sem hann gerði höfnina þar að siglingamiðstöð.