13.1 engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki: Páll var sannfærður um að sjálfur Guð og enginn annar efldi menn til valda. Því snerust þeir, sem óhlýðnuðust yfirvöldunum, gegn Guði sjálfum.

13.3,4 yfirvöld…þjóna Guði: Lærisveinum Jesú ber að hlýða yfirvöldum af því að þau eru þjónar Guðs. Yfirvöldin gætu bannað lærisveinunum að koma saman, eða jafnvel tekið þá af lífi, ef þeir risu í einhverju gegn þeim. Það myndi hindra fagnaðarerindið og koma í veg fyrir að það breiddist út um rómverska heimsveldið.

Í hlýðni við yfirvöldin fólst líka að greiða þeim skatta og skyldur til styrktar og hernum til upphalds. Lærisveinar Jesú áttu varla auðvelt með það, því að þeir vissu að skattféð rann í vasa keisara, sem ekki trúði á Guð og krafðist þess jafnvel að vera sjálfur tilbeðinn (sjá athugagrein við Matt 22.9).

13.11 Nú er okkur hjálpræðið nær: Í bréfum sínum minntist Páll oft á daginn, þegar Jesús kæmi aftur og settist að ríki sínu (1Kor 15.20-28; Fil 3.20,21; 1Þess 4.13-18). Hann vissi, að Drottinn væri „í nánd“ (Fil 4.5). Á þeim sama degi myndi Jesús „frelsa“ lærisveina sína. Sjá athugagrein við 1.16 (frelsar hvern þann mann sem trúir). Sjá „Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“ og „Endurkoman„.

13.12 nóttina…dagurinn…myrkursins…ljóssins: Þegar Páll ræðir um „nóttina“ á hann við yfirstandandi tíð, áður en Jesús kemur aftur til þess að ríkja. „Dagurinn“ er hjálpræðið, sem nefnt er í 13.11.

„Ljós“ í Biblíunni táknar Guð (Jóh 1.3,4; 1Jóh 1.5), Guðs orð (Slm 119.105) og fólk og viðburði sem birta sannleika Guðs (Jes 49.6). „Myrkur“ táknar auðn, eyðileggingu og dauða (Slm 143.3; Jes 5.30) og þá, sem rísa í gegn Guði (Jóh 8.12). Hér hefur Páll í huga það, sem menn hafast að á bak við tjöldin og fer í bága við vilja Guðs (13.13).