Orðin “endurkoma Drottins Jesú” eru notuð um það, þegar Jesús kemur aftur til þess að dæma lifendur og dauða og setja á stofn Guðs ríki. “Endurkoma” (á grísku “parúsía”) kemur nokkrum sinnum fyrir í Nýja testamenti. “Parúsía” þýðir raunar “koma” og er notaðt.d. í 1Kor 15.23og 1Þess 3.13.  Í rómverska heimsveldinu á fyrstu öldinni eftir Krists burð var orðið haft um það, þegar konungur eða keisari sté fram á svalir eða út á tröppur hallar sinnar, fagnað af fjöldanum, og ennfremur um heimsókn þjóðhöfðingja, sem mannfjöldinn hyllti.  Sjálfur segist Jesús koma aftur til þess að taka lærisveina sína til sín, til þess að þeir séu og þar sem hann er, á þeim stað, sem hann hefur búið þeim (Jóh 14.1-3).  Þá segir og höfundur Hebreabréfsins, að Kristur muni birtast aftur “til þess að frelsa þá sem bíða hans” (Heb 9.28).

Í Postulasögunni hermir frá því, að Jesús hafi orðið upp numinn að lærisveinum sínum ásjáandi, og tveir menn í hvítum klæðum hafi þá sagt: “Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins” (Post 1.9-11).   Og í guðspjöllunum er ritað um komu Mannssonarins, en svo nefndu höfundar þeirra Jesú.  Undanfari endurkomunnar verður þrenging, eymd og kveinstafir  (Matt 24.29-31; Mrk 13.3-27).  En þótt Jesús nefni ýmis tákn og fyrirboða komu sinnar, veit enginn daginn eða stundina, hvorki englar á himnum né sonurinn sjálfur (Matt 24.36-44; Mrk 13.32-37).  Með endurkomu Mannssonarins rennur upp dómsdagur og verður þeim þá refsað, sem illt hafa framið, en hinum umbunað, sem gott hafa gjört (Matt 13.41-43; 16.27,28; 25.31-46; Lúk 18.1-8; 21.34-36).  Höfundur Síðara almenna bréfs Péturs skrifar, að við endurkomu Drottins verði dómsdagur haldinn.  Þá muni Guð eyða með eldi himnunum sem nú eru, ásamt með jörðinni, óguðlegir menn muni tortímast, en fyrirheit Guðs um nýjan himin og nýja jörð rætast (2Pét 3.7-13; sjá og Opb 20.11-21.4 og “Dagur Drottins” á bls. 1622).

Í bréfum sínum segir Páll postuli þá sem játa Krist muni lífgaða verða þegar hann kemur aftur (1Kor 15.23; 1Þess 4.14-18).  Kristur muni þá gera að engu sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft, er standa í gegn Guði, en Guð verði að því loknu allt í öllu (1Kor 15.24-28). En þangað til kveðst Páll biðja þess, að friðarins Guð helgi og blessi lærisveina Krists, bæði á sál og líkama (1Þess 5.23).  Höfundur Hins almenna bréfs Jakobs mælir trúlega fyrir munn margra í frumkirkjunni, þegar hann hvetur lærisveina Jesú til þess að þreyja í þolinmæði “þangað til Drottinn kemur” (Jak 5.7,8; sjá og 1Jóh 2.18; Opb 22.6-10,20).  Þegar endurkoma Krists varð ekki eins og hinir fyrstu, kristnu menn höfðu búist við, veltu sumir höfundar Nýja testamentis fyrir sér ástæðu þess (Jóh 21.20-23; 2Pét 3.3-9).