Andstæðingar Guðs

Í því sem hér fer næst á eftir lýsir Jóhannes stríði hersveita Guðs og illra afla. Vonskan er í mynd dreka og tveggja dýra. Drekanum og dýrunum tveimur er um hríð leyft að heyja stríð við hina heilögu, ríkja yfir fólki og vinna kraftaverk í því skyni að lokka menn til þess að tilbiðja líkneski dýrsins.

12.1-6 Kona…þar sem Guð hefur búið henni stað: Konan á vísast að tákna Ísarelsþjóðina (12.5) eða að öðrum kosti gjörvalla kristnina í heiminum (12.6).

12.3,4 dreki…er hafði sjö höfuð…gleypa barn hennar:Í 12.9 er drekinn djöfullinn, Satan, höfuðandstæðingur Guðs. Sjá athugagrein við 2.10 (Djöfullinn). Höfuðin sjö og hornin tíu eiga ef til vill að vera þeir menn, sem börðust til valda í rómverska heimsveldinu, en Rómaborg var reist á sjö hæðum. Stjörnurnar, sem drekinn varpaði ofan á jörðina, kunna að merkja þá kröfu keisaranna í Róm að vera tilbeðnir sem guðir væru. Barnið nýfædda, sem drekinn bjóst til að gleypa, er Jesús.

12.6 eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga: Jafngildir þremur og hálfu ári (sjá athugagrein við 11.2).

12.7 Mikael og englar hans: Mikael var talinn höfuðengill og verndari Ísraels, er bjarga mundi þjóðinni úr þrengingum hinna síðustu daga (Dan 12.1). Mikael mun á sama hátt gæta hins nýja Guðs lýðs, kirkjunnar. (Sjá og Dan 10.13,21; Júd 9).

12.9 djöfull og Satan: Sjá athugagreinar við 2.10 (Djöfullinn) og 12.3,4 (dreki).

12.10 veldi hans Smurða: Sjá athugagrein við 11.15.

12.11 lambsins: Sjá athugagrein við 5.6. Með dauða Krists á krossinum og upprisu hans var Satan gjörsigraður.

12.11 blóð: Eða „dauða.“

12.14 þrjú og hálft ár: Sjá athugagreinar við 11.2 og 12.6.

12.15 Höggormurinn spjó vatni: Vatnsbunan táknar andstreymið sem hin illu öfl vildu valda mönnum.

12.18 hann: Í sumum handritum „ég.“