9.1 samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér: Sjá athugagrein við 1.3-4 (heilagur andi). Sjá og athugagrein við 2.14,15, þar sem Páll ræðir um „samviskuna“, þ.e. kröfu lögmálsins sem er skráð í hjarta mannsins. Hér segir Páll heilagan anda vera kennara sinn og fræðara, sem höfði til samvisku hans og hafi þannig áhrif á hugsanir hans og langanir.

9.3 bræður mína og ættmenn: Páll var Gyðingur og alinn upp af gyðinglegu foreldri. Sjá athugagrein við 1.1 (Páll) og „Páll (Sál) frá Tarsus„.

9.4 Ísraelsmenn:Sjá athugagreinar við 2.9,10 og 4.1. Sáttmálinn sem Guð gerði við Ísraelsmenn hafði inni að halda(1)fyrirheitið sem hann gaf Abraham og afkvæmi hans (1Mós 12.1-3) og (2)lögmálið sem Móse veitti viðtöku á Sínaífjalli (sjá athugagrein við 2.12).

9.9 Guð gaf honum fyrirheit…mun Sara haf eignast son:Sjá 1Mós 16; 21.8-12. Fyrirheit Guðs var gefið Ísak, syni þeirra Abrahams og Söru. Abraham eignaðist fleiri börn, þar á meðal Ísmael, en móðir hans var ambátt Söru, sem Hagar hét.

9.10 Rebekku…þunguð að tveim sveinum…Ísaks: Sjá frásögnina af Jakob og Esaú í 1Mós 25.19-34; 27.1-40.

9.18 miskunnar…forherðir þann sem hann vill: Það er undir Guði komið, hvort menn fá notið miskunnar eða forherða hjarta sitt.

9.20 Hvort fær smíðisgripurinn sagt við smið sinn: Leirker voru algeng meðal húsmuna Rómverja. Það var auðveldara að búa þau til og þau voru ódýrari en ílát af málmi. Úr leir voru smíðaðar skálar, könnur og lampar. Sumir þessara gripa voru fábrotnir að allri gerð, en aðrir með listilegu flúri og skrautmálaðir.

9.24 Gyðinga…heiðingja: Sjá athugagrein við 2.9,10.

9.25 Hósea: Hósea var spámaður í Ísrael á ríkisárum Ússía konungs í Júda (783-746 f. Kr.) og Jeróbóams II. konungs í Ísrael (786-746 f. Kr.). Hósea verður tíðrætt um Gómer, konu sína, sem skildi við hann fyrir annan mann. Spámaðurinn ber hana saman við Ísraelslýð, sem sneri baki við Guði, en elti skurðgoð.

9.25 Lýður sem ekki var minn: Páll vitnar hér bæði í Hós 2.23 og 1.10. Í spámælunum er gefið til kynna að Guð muni veita fólki af öllu þjóðerni viðtöku og líta á það sem sín börn. Sjá og Jes 2.2-4; 60.1-22; Mík 4.1-3 og Sak 8.20-23.

9.27 Jesaja: Jesaja var spámaður í Júda frá kringum 740 til 701 f. Kr.

9.29 Sódóma…Gómorru: Á dögum ættföðurins Abrahams eyddi Drottinn þessar borgir tvær vegna illsku íbúanna (1Mós 18.16-19.29).

9.31-32 lögmáli: Sjá athugagrein við 2.12.

9.31-32 ásteytingarsteininn: Hér hefur Páll Jesú í huga. Sjá og Mrk 12.10; 1Pét 2.6-8.

9.33 Síon: Síon hét virki uppi á hæðarkolli sem Davíð konungur tók herskildi og gerði að höfuðsetri konungdæmis síns, hét síðan Jerúsalem. Þar var musterið reist og var þess vegna litið svo á, að þar ætti Guð heima meðal fólks síns.