19.1 Jeríkó: Sjá athugagrein við 18.35.

19.2 Sakkeus…yfirtollheimtumaður: Í Nýja testamenti er ekki minnst á Sakkeus nema hér. Sjá athugagrein við 3.12 (tollheimtumenn).

19.3-4 mórberjatré: Mórberjatré eru upprunnin í Persíu, skyld fíkjutrjám. Þau verða allt að 6 metra há og breiðir limið mjög úr sér efst. Þegar berin þroskast verða þau svört á litinn og í þeim er sætur, rauður safi.

19.7 bersyndugum: Sjá athugagrein við 13.2.

19.8 gef ég honum ferfalt aftur: Í lögum bæði Gyðinga og Rómverja var kveðið svo á, að endurgreiða bæri það sem haft hefði verið af manni með svikum eða þjófnaði, og skyldi gjalda sekt að auki. Ferfalt var það mesta sem lögmál Gyðinga krafðist af þjófi (2Mós 22.1; 2Sam 12.6).

19.9 hjálpræði: Þegar Sakkeus hafði gengist við syndum sínum, iðrast og heitið bót og betrun, hlaut hann fyrirgefningu. Sjá “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)”.

19.9 niðji Abrahams: Gyðingar voru kallaðir synir Abrahams og dætur. Jesús lýsir því yfir, að Sakkeus heyri til Guðs útvalda lýð.

19.10 Mannssonurinn: Sjá athugagrein við 5.24. Sjá og Matt 18.10,11.

19.11 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 4.43. Sumir töldu að frækinn herkonungur á borð við Davíð mundi bera sigurorð af Rómverjum og heimta aftur lönd Ísraels og frelsi þjóðarinnar. Aðrir álitu að heimur allur breyttist þegar Guðs ríki yrði að veruleika.

19.23 vöxtum: Þá sem nú ávöxtuðu menn fé sitt í bönkum sem greiddu þeim vexti. Bankarnir veittu og fé að láni gegn vöxtum. Tekjur bankans voru mismunurinn á innláns- og útlánsvöxtum.

Jerúsalem: Síðustu dagar Jesú

Eftir langa ferð kemur Jesús til Jerúsalem. Hann veit, að samkvæmt fyrirætlun Guðs er honum ætlað að mæta þar óvinum sínum. Hann kennir fáeina daga í musterinu og býr lærisveina sína undir dauða sinn og það, sem þar fylgir á eftir. Síðan er hann tekinn höndum og dreginn fyrir dóm.

Jesús kennir í Jerúsalem

19.28,19 Jerúsalem…Betfage og Betaníu við Olíufjallið: Sjá athugagrein við 9.51 (Jerúsalem). Betfage (nafnið merkir “fíkjuhús”) var lítið þorp á leiðinni milli Jeríkó og Jerúsalem. Betanía er í hlíðum Olíufjallsins. Samkvæmt Lúkasarguðspjalli 24.50 var það í nánd við Betaníu sem Jesús steig upp til himins. Olíufjallið er um fjögurra kílómetra langur fjallshryggur í austur frá Kedrondal og Jerúsalem, um 90 til 150 metrum hærri en musterissvæðið í Jerúsalem.

19.36 breiddu menn klæði sín á veginn: Með þessu móti meðal annars fögnuðu menn tignum gestum og frægðarmennum (2Kon 9.13).

19.37 farið er ofan af Olíufjallinu: Sjá athugagrein við 19.28,29. Hafi Jesús komið inn í borgina um musterishliðið (sjá kort á bls. 2376), þá getur mannmergðin hafa staðið við veginn á meira en hálfs annars kílómetra kafla. Þeir, sem stóðu á musterissvæðinu, geta hafa séð Jesú koma ríðandi ofan af Olíufjallinu, yfir Kedrondalinn, og upp veginn að musterishliðinu.

19.43 þeir dagar munu koma: Forspá Jesú rættist árið 70 e. Kr. Þá bældu Rómverjar niður uppreisn Gyðinga í Jerúsalem. Um leið rufu þeir borgarmúra og lögðu musterið í eyði.

19.44 þekktir ekki þinn vitjunartíma: Gyðingar horfðu vonaraugum fram til þess dags þegar Drottinn gengi í lið með þeim gegn óvinum þeirra. En þegar Jesús kom í heiminn báru fæstir kennsl á hann sem “frelsara” sinn. Sjá “Kærleikur Guðs frelsar. (Hjálpræði)”.

19.47 æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar: Sjá athugagrein við 9.22. Það var úr háum sessi að detta fyrir þessa menn ef almenningur fagnaði Jesú og tæki kenningar hans gildar. Jesús bauð stöðu þeirra og völdum birginn. Það reitti þá svo til reiði að þeir vildu hann feigan (19.47). Sjá “Mannlíf og landshættir á tímum Jesú: Þjóðir, valdhafar og stjórnmál”.