Í mörgum bókum Biblíunnar velta höfundarnir því fyrir sér hvenær þessi heimur muni líða undir lok og Guð verða allt í öllu. Fór talsvert fyrir þessum hugleiðingum í því sem Gyðingar rituðu þegar fyrir Krists burð. Í Daníelsbók segir að Guð hafi ákvarðað “síðustu tíma” þegar fyrirætlanir hans muni feykja burt ráðagerðum mannanna og áformum þeirra, en dauðir rísa upp til dóms (Dan 8.19). Habakkuk spámaður sagði fyrir um “ákveðinn tíma, ókomna tíð” og kæmist þá hinn réttláti lífs af fyrir trú sína (Hab 2.3,4).

Þessi trú var líka áberandi í frumkristni. Jesús ræðir við lærisveina sína um þá daga í framtíð, þegar voveifleg tíðindi muni spyrjast í heimi öllum og stórkostlegar hamfarir. En hann segir líka, og á við sjálfan sig, að þá komi Mannssonurinn aftur og safni saman “sínum útvöldu” úr hinum fjórum áttum veraldar (Mrk 13). Í Jóhannesarguðspjalli segist Marta í Betaníu vita að Lasarus bróðir hennar muni rísa upp “í upprisunni á efsta degi” (Jóh 11.24). Og höfundur Síðara Tímóteusarbréfs skrifar að koma muni örðugar tíðir “á síðustu dögum” (2Tím 3.1).

Á fyrstu öld okkar tímatals voru ríkjandi tvær skoðanir á “efstu dögum” eða “síðustu tímum.” Önnur var sú, að þá yrði háð orrusta á milli góðs og ills. Hin var á þá lund, að lýður Guðs yrði að þola miklar þrengingar áður en endirinn kæmi. Viðburðir veraldarsögunnar í samtímanum réðu nokkru um þessar hugmyndir. Júdamenn, sem snúið höfðu heim úr herleiðingunni til Babýlon, ólu þá von í brjósti, að ríki þeirra yrði endurreist jafn öflugt og verið hafði á dögum Davíðs konungs. Þetta varð ekki og Júdea mátti áfram lúta yfirstjórn fleiri en einnar herraþjóðar (fyrst Persa og síðar bæði Grikkja og Rómverja). Sjálfstætt konungdæmi Gyðinga undir forystu Makkabea stóð aðeins örfá ár (168-63 f. Kr.)

Á miklum óróatímum í þjóðmálum kynntust Júdamenn í herleiðingunni trúarbrögðum Persa. Persar töldu, að hið illa væri ekki einasta sprottið af eigingirni mannsins og breyskleika, heldur stafaði það umfram allt af baráttu góðra afla og illra, er ekki linnti á meðan heimur stæði. Þessari kenningu, sem nefnd er tvíhyggja (dúalismi), fylgir sú sannfæring að allt misjafnt í veröldinni sé að kenna huldum, illum öflum, er lúti stjórn helsta andstæðings Guðs, höfðingja illu aflanna. (Sá er á hebresku nefndur Satan.) Þó voru Persar á því, að hið góða myndi bera sigurorð af því illa um það er lyki. Þessarar hyggju gætir í hinum yngri af helgiritum Gyðinga (Sak 3.1-12) og hún setur mark sitt á gjövallt Nýja testamentið (Mrk 1.12,13; 3.22-26; Post 26.12-18; Ef 6.10-13; Opb 20.1-3).

Biblían kennir líka, að fyrirætlanir Guðs hafi verið opinberaðar Ísraelsþjóðinni í lögmáli Móse. Guð dæmdi menn eftir því hvort þeir hlýðnuðust lögmálinu og boðorðum þess – eða ekki. Jesús fór að vilja Guðs er hann kallaði hina trúu til hlýðni. Því var staðfastlega trúað, að hinum trúföstu yrði umbunað, en brotlegum refsað. Þessar trúarkenningar eru greinilegar í gyðinglegum ritum á borð við Daníelsbók og einnig í ritum, sem ekki heyra Gamla testamenti til, eins og Fyrri og Síðari Enoksbók og Hátíðarritinu (Jubilees). Þær er og að finna í boðskap Jesú og Páls postula, og nær öllum ritum Nýja testamentis, en einkum þó í Opinberunarbók Jóhannesar.