Í Biblíunni kemur höfuðskepnan eldur mjög við sögu:

  1. Eldurinn táknar návist Guðs.   Fræg er í Gamla testamenti (helgiritum Gyðinga)  sagan af því, er Guð kallaði til Móse úr miðjum þyrnirunna, sem stóð í ljósum logum (2Mós 3.2); þá greinir frá því, að eldstólpi fór fyrir Ísraelsmönnum um nætur til þess að lýsa þeim á eyðimerkurgöngunni (2Mós 13.21,22); og  eldsumbrot urðu á Síanífjalli þegar Guð kom þar til fundar við Móse og alla þjóðina (2Mós 19.18;  24.17,18; 5Mós 4.11,35,36).  Í Nýja testamenti segir frá gjöf heilags anda á hvítasunnudag, þegar “tungur, eins og af eldi væru” (Post 2.1-4) settust á hvern og einn postulanna.  Og þegar hermir frá því í 1. kapítula Opinberunarbókar Jóhannesar, að Jesús hafi birst höfundinum í sýn, þá virtist honum augu frelsarans vera “eins og eldslogi” og fætur hans “sem glóandi málmur í eldsofni.” Guð vitraðist spámönnum Ísraels í björtum loga (Jes 4.5), kom til jarðar í eldi (Jes 66.15) og sat í hásæti, sem var eldslogi (Dan 7.9,10).
  2. Brennifórnir voru færðar í musterinu í Jerúsalem. Eldinum á altarinu, sem átti að minna á stöðuga nærveru Drottins þar, skyldi alltaf haldið lifandi (3Mós 6.5,6).  Kveikt var í reykelsisfórn og eins var eldur látinn eyða brennifórninni (3Mós 6.14,15).  Höfundur Hebreabrésins vitnar í 104. Davíðssálm, þegar hann líkir englunum, þjónum Guðs, við eldsloga (Heb 1.7).
  3. Drottinn beitti eldi í refsingarskyni.Þannig lét hann rigna eldi og brennisteini yfir Sódómu og Gómorru (1Mós 19.24,25) og deyða í eldi alla ætt þeirra, sem stolið höfðu bannhelgum munum í Jeríkó, áður en borgin var lögð í eyði (Jós 7.15).Eldur er táknmynd reiði Guðs (Slm 95.5; 89.46), og hann mun kalla eld yfir þá, sem hann hegnir fyrir syndir og varmennsku (5Mós 32.22;  Jes 50.10,11; 66.15,16;  Amos 7.4). Við endi daganna verður illum öflum tortímt í eldi (Dan 7.11; Mal 4.1). Jesús segir, að á dómsdegi muni rigna eldi og brennisteini yfir jörðina og verði það vondu fólki að aldirtila (Matt 3.11,12;  13.37-42; Lúk 17.29-30).  Eftir dómsorðið yfir óguðlegum heimi verður honum refsað með eldi (2Pét 3.7).  Í opinberunarbók Jóhannesar er þessu lýst nákvæmlega (Opb 8.7; 9.18; 11.5; 14.9,10; 19.20; 20.9-15).
  4. Guð skírir fólk í eldi. Við skírsluna (hreinsun, eldraun) vaxa menn af því að þurfa að mæta andstreymi og erfiðleikum (Slm 66.12; Jes 43.2; 1Pét 1.7).  Dómsdagur í framtíð mun leiða í ljós hvílíkt verk hvers og eins er,  líkt og þegar menn hreinsa silfur eða prófa gull í eldi (Sak 13.9;  1Kor 3.12-15).