Í Biblíunni merkir orðið “trú” traust á Guði.  En það getur líka þýtt “trúarskoðanir”.  Hebreska orðið,  sem stundum er þýtt með “trú” eramen, sem flestir þekkja úr bænum og víxlsöngvum. Það merkir “já, það er vissulega satt” og við tökum okkur það í munn þegar við samsinnum því að orð Guðs og verk séu að öllu leyti ábyggileg.

Traustið á Guði skiptir öllu eins og ljóslega kemur fram í 1Mós 15.1-6.  Þar segir Guð Abraham að hann muni eignast erfingja og það jafnt fyrir því þótt Sara, kona hans, sé óbyrja og auk þess löngu komin úr barneign.  Áður hafði Guð lofað því að Abraham skyldi verða ættfaðir fjölda þjóða og að af honum mundu allar ættkvíslir jarðarinnar hljóta blessun (1Mós 12.3; 17.3-7).  Þessi fyrirheit voru ekki grundvölluð á neinu því sem Abraham hafði til að bera eða fram að færa, heldur á einskærri gæsku Guðs og kærleika.  Og Abraham  trúði Guði og treysti fyllilega orðum hans.  Lýð Guðs, söfnuði hans, er ætlað að gera þetta sama:  að treysta fyrirheitum Guðs í öllum hinum mörgu og mismunandi aðstæðum lífsins (Slm  25.5; 32.10; Okv 16.20; Jer 39.17,18).

Þegar lærisveinar Jesú og aðrar sögupersónur guðspjallanna eru vændar um að “hafa enga trú” (Mrk 4.40;6.6) þá er ekki átt við að fólkið vanti trúarskoðanir, heldur skorti traustið á krafti Guðs að verki í Jesú.  En þeir sem treysta Jesú fá að reyna þennan mikla mátt, eins og t.d. samkundustjórinn Jaírus, faðir dánu stúlkunnar, og konan sem hafði haft blóðlát í tólf ár og snart klæði Jesú (Mrk 5.21-43).

Eftir að Jesús dó og var reistur upp frá dauðum, hafa lærisveinar hans og þar á meðal Páll postuli hvatt karla og konur hvarvetna til þess að treysta (“trúa á”) Jesú, sem gaf sjálfan sig sem lausnargjald fyrir alla (1Tím 2.6; Róm 1.3-6; 3.24,25) og var reistur upp frá dauðum samkvæmt fyrirheiti Guðs um eilíft líf (Post 2.36-39; Ef 1.15-23; 1Kor 15.12-24). Þeir sem setja traust sitt á verk Guðs í Jesú Kristi eru söfnuður hans (Gal 3.23-29).