Páll kynnir sig og fagnaðarerindið
Páll skrifar lærisveinum Jesú í Róm, að hann sé þjónn Jesú Krists, sem Guð hefur kallað til þess að vera postuli og valið til þess að boða fagnaðarerindið sitt. Hann flytur Guði þakkir fyrir móttakendur bréfsins og flytur þeim svo gleðiboðskapinn, sem hann segir vera “kraft Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir” (1.16).
1.1 Páll…þjónn Jesú Krists: Páll gékk líka undir gyðinglegu nafni sínu, “Sál” (Post 7.57-8.3; 9.1-30). Hann kallaði sig oft þjón (Jesú Krists), sem bókstaflega merkir “þræll” Krists. Sjá “Páll (Sál) frá Tarsus“.
1.1 postuli…boða fagnaðarerindi sitt: Orðið postuli þýðir sendimaður, sem flytur ákveðin boð eða er falið sérstakt verkefni á hendur. Hér merkir það þann sem valinn er af Guði til þess að útbreiða fagnaðarerindið um Jesú, en það er líka nefnt “gleðiboðskapur.” Fagnaðarerindið er hvort tveggja í senn: Frásögnin af Jesú og sá boðskapur um Guðs ríki, sem Jesús flytur.
1.2 spámenn: Spámenn Ísraels voru sérstakir sendiboðar sem mæltu fyrir munn Guðs. Stundum birtust þeim í sýn óorðnir hlutir (eins og t.d. að syndsamleg hegðun myndi kalla á refsingu), en oftast fluttu þeir boð frá Guði, sem beint var að þeim aðstæðum sem þá og þá voru uppi. Þeir sögðu frá því fyrirheiti Guðs að senda Messías sem frelsa mundi þjóðina (Jes 9.6,7; Míka 5.2). Páll vitnaði í mörg spámannarit til þess að sýna fram á, að fyrirætlanir Guðs á öldum áður væru nú að verða að veruleika í Jesú Kristi.
1.2 helgum ritningum: Hér er átt við helgirit Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti.
1.3-4 son hans, Jesú Krist: Páll boðaði, að Jesús væri sonur Guðs, eins og hann er oft nefndur í guðspjöllunum (Jóh 1.49; Mrk 15.39). Sjá “Sonur Guðs“. Drottinn er á grísku “kyrios” og felst í því orði bæði vald og myndugleiki. “Kristur” er christosá grísku, á hebresku “Messías” sem þýðir hinn smurði.
1.2-4 af kyni Davíðs: Hér áréttar Páll að Jesús var sannur maður, að langfeðgatali kominn af stórkonunginum Davíð, sem uppi var þúsund árum fyrir Krists burð. Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) er staðhæft að Messías muni rekja ættir sínar til Davíðs (Jes 11.1-10; 2Sam 7.11-14), og í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar er Jesús sagður afkomandi Davíðs konungs (Matt 1.1-17; Lúk 3.23-38).
1.3-4 heilagur andi…auglýsti með krafti að hann er sonur Guðs: Heilagur andi er ósýnilegur kraftur Guðs, sem kemur fyrirætlunum hans í framkvæmd hér í heimi. Páll segir hér, að heilagur andi hafi átt þátt í því að reisa Jesú upp frá dauðum og sé það sönnun þess, að Jesús er í sannleika sonur Guðs. Sjá um Heilagan anda.
1.5 postuli: Sjá athugagrein við 1.1 (postuli…boða fagnaðarerindi sitt).
1.7 Guði föður vorum: Jesús kallaði Guð “föður” (Jóh 14). Páll gerir eins í mörgum bréfa sinna (1Kor 1.3; Gal 1.2,3; Fil1.2).
1.8 orð fer af trú ykkar í öllum heimi: Lærisveinar Jesú í löndunum umhverfis Miðjarðarhafið höfðu haft spurnir af lærisveinunum í Róm. Sjá innganginn að Rómverjabréfinu.
1.9 fagnaðarerindinu: Sjá athugagrein við 1.1 (postuli…boða fagnaðarerindi sitt).
1.11 andans: Sjá athugagrein við 1.3-4 (Heilagur andi).
1.13 Post 19.21.
1.16 frelsar hvern þann mann sem trúir: Þetta er hið brýna meginumræðuefni í öllum bréfum Páls postula, og þó einkanlega í Rómverjabréfinu. Orðið “frelsar” merkir að Guð hefur leyst mennina undan syndinni og hvers kyns öflum hins illa. Hjálpræði, sáluhjálp, fellur þeim í skaut, sem trúa á Jesú og játa að hann sé sonur Guðs og frelsari heimsins. Sjá “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“, “Eilíft líf” og “Trú“.
1.16 Gyðinginn fyrst og aðra síðan: Sjá athugagrein við 2.10 og “Heiðingjarnir“.
1.18 af himni: Margur hugsar um himnaríki eins og það sé einhvers staðar “uppi í loftinu.” Nær er þó að skilja orðið þannig, að það sé staðurinn, þar sem Guð ræður ríkjum.
1.19,20 Guð hefur birt…allt frá sköpun heimsins: Hér segir Páll, að hverjum manni ætti að vera ljóst af sköpun Guðs hvernig hann vill að þeir hagi lífi sínu.
1.21 hjarta þeirra hjúpaðist myrkri: Í Biblíunni, svo sem einnig í veröldinni til forna, táknar “myrkur” oft volæði, refsingu og dauða (5Mós 28.28; Slm 14.3; Jes 5.30). Jesús nefndi sjálfan sig “ljós heimsins.” Af sjálfu leiðir, að “myrkrið” er þar sem menn vilja ekki feta í fótspor frelsarans. (Jóh 8.12).
1.23 tilbeðið myndir: Lögmál Móse leggur blátt bann við því að menn tilbiðji nokkuð annað en Drottin Guð. Það er þannig óleyfilegt að smíða “skurðgoð,” ennfremur að tilbiðja nein líkneski eða eftirlíkingar af því sem er á jörðu eða í hafinu (2Mós 20.3,4). Á dögum Páls dýrkuðu Grikkir, Rómverjar og margar fleiri þjóðir skurðgoð og reistu ýmsum falsguðum hof og hörga. Sjá “Trúarbrögð í rómverska heimsveldinu“.
1.24,25 svívirtu líkami sína…dýrkað hið skapaða: Páll kann hér að eiga við þá sem í heiðnum guðmóði höfðu kynmök við hofskækjur og vændisfólk og þá sem trúðu á stokka og steina í stað þess að tilbiðja lifandi Guð.