5.1 Genesaretvatn: Annað nafn á Galíleuvatni í norðurhluta Jódandalsins. Vatnið er 21 km að lengd og breiðast 12 km. Rómverjar nefndu það Tíberíasvatn (Jóh 6.1; 21.1) eftir einum keisaranna.
5.2 fiskimennirnir…þvoðu net sín: Sjá „Fiskveiðar“. Fiskimenn þvoðu netin til þess að slímið af fiskinum þornaði ekki á þeim og þau yrðu ómeðfærileg.
5.3 settist: Kennarar til forna kenndu sitjandi (sjá og Matt 5.1).
5.8 Símon Pétur: Nafn Símonar á grísku (Pétur) og viðurnefni hans á hebresku (Kefas) merkja bæði „klettur.“ Sjá og 9.20 og athugagrein við 4.38.
5.8 ég er syndugur maður: Í 1Mós 3 segir frá því er syndin kom í heiminn. Sjá og Róm 3.23. Pétur bar kennsl á dýrð Guðs er birtist í Jesú. Um leið var honum ljóst, að hann var syndugur maður. Sjá og „Synd“.
5.10 Jakob og Jóhannes Sebedeussyni: Þessir bræður urðu lærisveinar Jesú (5.11; 6.14). Hann kallaði þá „Boanerges“ sem þýðir „þrumusynir“ (Mrk 3.17).
5.12 líkþrá: Sjá athugagrein við 4.27.
5.14 bauð honum að segja þetta engum: Oft bað Jesús þá sem hann læknaði að segja engum frá því (Mrk 3.10-12; 7.34-36). Ef til vill vildi hann koma í veg fyrir að þeir flykktust að honum sem væru á höttunum eftir undrum og stórmerkjum fremur en að þeir hefðu áhuga á að heyra um hið nýja Guðs ríki.
5.14 sýn þig prestinum: Þeir sem læknuðust af líkþrá, urðu að sýna sig prestunum, til þess að verða úrskurðaðir hreinir. Þar með fóru þeir að helgum sið um hreinsun og voru fyrst eftir það velkomnir aftur í samfélag Guðs lýðs. Menn skyldu síðan færa dýrafórn að fórnargjöf, ásamt mjöli blönduðu ólífuolíu. Sjá 3Mós 14.1-32; farísear og lögmálskennendur: Farísear komu saman í heimahúsum til þess að lesa ritningarnar og biðjast fyrir. Lögmálskennendur voru sérfróðir í Mósebókunum, fimm fyrstu ritum Gamla testamentis. Báðir þessir hópar manna trúðu því, að Guð einn gæti fyrirgefið syndir. Sjá og greinina „Mannlíf og landshættir á tímum Jesú: Þjóðir, valdhafar og stjórnmál“.
5.19 upp á þak: Húsþök í Palestínu voru oftast flöt. Upp á þau lágu tröppur utan á húsunum. Þökin voru gerð úr bjálkum eða röftum og hrís og greinar lagt yfir. Þetta var síðan þakið með leir og mold og troðið þar til það varð að harðri og þéttri skán. Ef vanda skyldi sérstaklega til húsbyggingar, var þakið stundum með leirflísum.
5.24 Mannssonurinn: Sjá „Mannssonurinn“.
5.27 tollheimtumann, Leví að nafni: Annað nafn á Leví var Matteus (Matt 9.9-13). Hann hefur trúlega setið við að innheimta vegatoll í skýli við þjóðveginn.
5.30 farísearnir og fræðimenn: Sjá athugagrein við 5.17.
5.33 Lærisveinar Jóhannesar: Hér er átt við Jóhannes skírara.
5.33 fasta: Sjá athugagrein við 2.37.
5.34 brúðguminn: Jesús á við sjálfan sig. Sjá og 9.22 og 17.22.
5.36-38 bót…belgi: Bót úr nýjum, óþvegnum dúk var líkleg til þess að hlaupa í þvotti. Væri hún notuð til þess að bæta rifu á gömlu klæði var hætta á að við þetta yrði úr enn verri rifa.
Við gerjun verður berjasafi að víni. Vínið var látið í belgi úr skinni. Loft myndaðist af gerjuninni og belgirnir tútnuðu út. Það sakaði ekki ef þeir voru af nýrri húð. En væri nýtt vín sett á gamla belgi og skinn þeirra orðið þurrt og skorpið, þá rifnuðu þeir þegar vínið fór að gerjast. Sjá og „Vín“.