Óvinveittir nágrannar gyðinga réðu oft lögum og lofum á strandlengjunni meðfram Miðjarðarhafinu og meinuðu þeim aðgang að höfnum og veiðum þar. Þeir veiddu því einkum fisk í Galíleuvatni.  Helstu tegundirnar voru vatnakarfi og gedda.  Lögmál Móse heimilar fólki að eta allan þann fisk, sem hefur ugga og hreistur, en þar sem geddan er án hreisturs (eins og áll og hákarl) máttu menn ekki neyta hennar (3Mós 11.9-12).  Þurrkað eða saltað fiskmeti barst frá Týrus og Sídon.

Í sköpunarsögunni segir frá því er Guð bauð að vötn jarðarinnar skyldu fyllast af fiski, vatnagróðri og alls kyns lífverum í sjó (1Mós 1.28; Slm 8.6-8).  Hann  fól mönnunum að gera sér jörðina undirgefna, þar á meðal fiskinn í hafinu, ánum og vötnunum (5Mós 4.15-18).  Esekíel spáir því, að saltur sjórinn í Dauðahafinu muni verða að fersku bergvatni og það fyllast af fiski þann dag, þegar Guð gjörir alla hluti nýja.

Galíleumenn höfðu atvinnu og drjúgar tekjur af fiskveiðum og nokkrir lærisveina Jesú voru fiskimenn.  Jesús sagði þeim að nú skyldu þeir menn veiða, í staðinn fyrir fisk (Mark 1.16,17; Matt 4.18,19).  Þegar Jesús mettaði þúsundirnar gaf hann fólkinu fisk og brauð (Mark 6.30-44;  Matt 14.14-21; Lúk 9.10-17).  Og þegar hann leiddi lærisveinum sínum fyrir sjónir þann stórmikla árangur sem þeir gætu vænst með því að trúa á hann og boða öðrum fagnaðarerindið, sýndi hann þeim mikinn afla.  Netið, sem postularnir köstuðu í vatnið, fylltist svo að fiski að þeir gátu ekki dregið það um borð í bátinn (Jóh 21.4-12).

Í frumkirkjunni var táknaði fiskur sjálfan Jesú umfram öll önnur tákn.  Ástæðan var sú, að bókstafirnir í gríska orðinu fiskur (ichthus) eru og upphafs-stafirnir í þeim orðum á grísku, sem lýsa því hver Jesús er:

  • I – I hsous – Jesús
  • X – Ch ristos – Kristur
  • Ө – Th eou – Guðs
  • Y – U ios – Sonur
  • Σ – S wthr – Frelsari

Fiskveiðar á Galíleuvatni

Höfundur Markúsarguðspjalls segir frá því þegar Jesús sagði fjórum fiskimönnum að fylgja sér, þeim Símoni (sem kallaður var Pétur), Andrési, Jakobi og Jóhannesi.  Margir fiskimenn köstuðu netum sínum úr fjörunni í grunnt vatnið, en aðrir reru til fiskjar.  Þeir þurftu að ráða sér aðstoðarmenn til þess að draga þung netin. Mikið var af vatnakarfa og geddu í Galíleuvatni, auk smærri ferskvatns-fiska.