Í Miðausturlöndum voru þrúgur hafðar til víngerðar. Berin voru tínd síðsumars og látin liggja á vellinum um hríð áður en safinn var pressaður úr þeim. Um sama leyti var Laufskálahátíðin haldin til þess að minnast þess er Ísraelsmenn voru á eyðimerkurgöngunni á leið til fyrirheitna landsins (5Mós 16.13-15). Vínþrúgurnar voru kramdar í sérstakri þró, sem gjarnan var höggvin niður í klett. Svo var troðið á berjunum í vínþrönginni (Jes 16.10) og rann lögurinn eftir rás og niður í vínlagarþró. Safinn var síðan settur á leirbrúsa eða belgi úr dýraskinni. Varð að hafa op á þessum ílátum svo að loftið, sem myndaðist við gerjunina, sprengdi þau ekki (Job 32.19). Gamlir belgir úr þurri og stökkri húð vildu springa þegar nýtt vín var látið á þá (Matt 9.17).

Í Palestínu og Sýrlandi var loftslag og jarðvegur hentug til vínyrkju og hún var drjúgur hluti landbúnaðarins þar. Þegar Móse sendi menn til þess að kanna Kanaansland sniðu þeir af vínviði grein með einum vínberjaklasa, sem svo var mikill um sig, að tvo þurfti til þess að bera hann á stöng á milli sín (3Mós 13.21-27). En þaðan fór og sögum af gnægð hveitis og olífuolíu (1Mós 27.28; 5ós 7.13; 18.4; 2Kon 18.32; Jer 31.12).

Vatn var af skornum skammti í Palestínu og drukku menn því vín við matnum og drjúgum í mannfagnaði, ekki síst brúðkaupsveislum (Jóh 2.1-12). Þá var og vín notað til lækninga (Lúk 10.34; 1Tím 5.23). Aðkomnir Gyðingar í Jerúsalem, sem ferðast höfðu þangað til þess að halda páska hátíðlega, höfðu með sér vín (1Sam 1.24).

Víngerð var svo almenn í Ísrael og Júda, að spámennirnir brugðu gjarnan upp myndum af henni, þegar þeir reyndu að útmála hug Drottins til þjóðarinnar. Þannig líkir t.d. Jóel spámaður komandi dómi Guðs yfir þjóðunum við það er þrúgurnar eru troðnar í vínlagarþrónni (Jóel 3.18). Eins segir hann að Drottinn muni blessa fólkið með því að láta fjöllin löðra í vínberjalegi (Jóel 3.23).

Í Nýja testamenti táknar vínið blóð Jesú, blóð sáttmálans, sem úthellt er til syndafyrirgefningar (Mrk 14.23-25). Og Jesús líkti lífinu nýja sem hann færir við nýtt vín sem látið er á nýja belgi (Matt 9.17). Og höfundur Opinberunarbókar Jóhannesar jafnar dómi Guðs yfir illvirkjum saman við það þegar mikil vínþröng er troðin (Opb 14.19,20).