Páll áréttar postuladóm sinn og kenningu
Til voru þeir í söfnuðum Galatalands, sem báru brigður á að sjálfur Guð hefði útvalið Pál til þess að verða boðberi fagnaðarerindisins um Jesú Krist. Framan af bréfinu (1,2) fæst Páll við þessar efasemdir, heldur því fram, að boðskapur sinn sé beint frá Jesú Kristi kominn (1.12) og Guð hafi útvalið sig til þess að prédika heiðingjum fagnaðarerindið (1.15,16).
Páll postuli: Orðið “postuli” þýðir maður, sem einhver hefur sent og falið ákveðið verkefni. Í Nýja testamenti merkir orðið þann, sem Guð hefur valið til þess að útbreiða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Páll heldur fast við það, að sjálfur Guð en ekki maður, hafi falið honum þetta hlutverk. Sjá “Páll (Sál) frá Tarsus“.
Galataland: Hérað í miðri Litlu-Asíu. Þangað kom Páll á kristniboðsferðum sínum (sjá Post 13-14.23; 16.6; 18.23). Nafn sitt dregur landsvæðið af keltneskum þjóðflokki, sem réði fyrir stórum hluta þess á 2. öld f. Kr. og nefndist “Gallar.”
Jerúsaelm, Damaskus, Arabía: Jerúsalem var miðstöð guðsdýrkunar Ísraelsmanna. Fyrstu lærisveinar Jesú voru Gyðingar. Þess vegna áttu margir leiðtogar frumkirkjunnar heima í Jerúsalem og nágrenni.
Damaskus var mikil verslunarborg á Sýrlandi. Þangað lágu þjóðbrautir og þangað barst boðskapurinn um Jesú og þar fjölgaði lærisveinum hans. Afturhvarf Páls varð á leiðinni til Damaskus, er hann var á leið þangað til þess að ofsækja hina kristnu. Þá leiftraði um hann ljós af himni og Jesús vitraðist honum. Hann varð aldrei samur eftir.
Páll dvaldi í Arabíu um hríð, líklega í Nabateu, en svo heitir landsvæði fyrir sunnan Damaskus og fyrir austan ána Jórdan. Þangað kann Páll að hafa flúið undan Gyðingum sem vildu hann feigan af því að hann prédikaði Krist (Post 9.22,23).
1.1-2 Páll postuli: Sjá athugagrein um Pál postula.
1.1-2 söfnuðunum: Sjá “Kirkjan“.
1.3 Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi: Í mörgum bréfa sinna kallar Páll Guð “föður” (1Kor 1.3; Gal 1.2,3; Fil .1.2). Sjá “Drottinn (notað um Jesú)“.
1.4 syndir: Synd er að snúa baki við Guði og óhlýðnast boðum hans. Sjá og “Synd“.
1.5 Amen: Hebreska orðið “amen” þýðir “já, það er vissulega satt.”
1.6 til annars konar fagnaðarerindis: Þetta “annars konar fagnaðarerindi” fól í sér, að þeir sem ekki væru Gyðingar en tækju kristna trú þyrftu að láta umskerast og lifa samkvæmt lögum Móse (3.1-5; 10,11; 5.1-6).
1.7 einhverjir að trufla ykkur: Falsboðendur kenndu, að þeir sem ekki væru Gyðingar en tækju kristna trú yrðu að fara að ýmsum helgisiðum Gyðinga, m.a. að láta umskerast. Þeir héldu því að Galatamönnum, að Páll bæri ekki postulanafn með réttu, af því að hann segði heiðingja hvorki bundna af lögmáli Móse né heldur af erfikenningu og siðum Gyðinga.
1.10 Er ég að leitast við að þóknast mönnum?Vera má, að Páll hafi verið sakaður um lýðskrum af því að hann vildi ekki krefjast þess af karlmönnum meðal heiðin-kristinna að þeir létu umskerast, en umskurn var tákn sáttmála Guðs við Abrahams ættföður. Sjá “Umskurn“.
1.12 heldur hefur Jesús Kristur opinberað mér það: Afturhvarfi Páls er lýst í Post 9.1-18.
1.13,14 ofsótti kirkju Guðs…miklu vandlátari um erfikenningu: Páll hafði ofsótt kristna menn (Post 8.1-3; 22.3-5; 26.9-11) af því að hann taldi þá fótumtroða trú og siði Gyðinga.
1.16 heiðingjunum: Gyðingar kölluðu aðrar þjóðir heiðingja. Sjá Post 9.15; 13.44-48 og “Heiðingjarnir“.
1.17,18 Arabíu…Damaskus…Jerúsalem: Athugagrein um Jerúsalem, Damaskus, og Arabíu vantar.
1.18 Kefas:Arameíska nafnið “Kefas” þýðir klettur. Það er á grísku “Petros”, þ.e. Pétur. Pétur, postuli Jesú, var einn helsti leiðtogi frumkirkjunnar (sjá Matt 16.13-20).
1.21 héruð Sýrlands og Kilikíu: Páll fæddist í Tarsus í Kilikíu (Post 9.11; 22.3), en þar bar mikið á trú og siðum Grikkja.
1.22 Júdeu: Fyrstu, kristnu söfnuðirnir urðu til í Jerúsalem í Júdeu. Jesús var krossfestur í Jerúsalem. Hann var reistur upp frá dauðum á þriðja degi.