Páll heilsar Filippímönnum og þakkar Guði fyrir þá
Páll byrjar Filippíbréfið með því að heilsa viðtakendum líkt því sem oft tíðkaðist með Grikkjum. Eftir upphafskveðjuna þakkar hann Guði fyrir lesendur bréfsins og biður fyrir þeim.
Filippí var á dögum Páls rómversk nýlenda. Í borginni voru sjónleikahús, baðstaðir, torg og styttur af guðum Rómverja. Þar áttu heima margir uppgjafahermenn rómverskir. Sjá nánar “Rómverska heimsveldið“.
Filippí hét eftir Filippusi II. Makedóníukonungi, föður Alexanders mikla. Um miðja 4. öld f. Kr. hafði hann lagt þetta sveitahérað undir sig vegna gull- og silfurnáma sem þar var að finna. Seinna varð Filippí mikil borg eftir að Rómverjar hertóku staðinn og lögðu Egnatíu-veginn svokallaða, hina frægu og fjölförnu þjóðbraut milli Adríahafsins í vestri og Býsans (nú Istanbúl) í austri, en hún lá um Filippí.
1.1 Páll og Tímóteus: Páll var fyrr á ævi farísei og vildi hlýða lögmáli Móse af fremsta megni. Hér kallar hann sig aftur á móti þjón Jesú Krists. Sjá nánar “Páll (Sál) frá Tarsus“.
Tímóteus var “sonur trúaðrar konu af gyðingaætt, en faðir hans var grískur” (Post 16.1). Tímóteusar, samstarfsmanns Páls, er getið í mörgum bréfa hans (1Kor 4.17; 2Kor 1.1; 1Þess 1.1; Fílm 1).
1.1 Krists Jesú: Jesúsvar algengt karlmannsnafn meðal Gyðinga þessa tíma. “Kristur” þýðir “hinn Smurði” eða “útvaldi.” Sjá og “Messías (hinn útvaldi)”.
1.1 biskupum þeirra og djáknum: Gríska orðið “episkopos”, sem hér er þýtt með orðinu “biskup” þýðir eftirlits- eða tilsjónarmaður. Biskupar voru leiðtogar hvers safnaðar nefndir. Gríska orðið “diakonos” (djákni) merkir þjónn. Í frumkirkjunni sáu þeir meðal annars um “daglega úthlutun” til þurfamanna (Post 6.1).
1.2 Guði föður vorum…Drottni: Í mörgum bréfa sinna notar Páll orðið “faðir” um Guð (Gal 1.2,3; 1Kor 1.3; Róm 1.7). Þegar Jesús er nefndur “Drottinn” er kveðið svo skýrt á um vald hans og mátt sem verða má. Sjá “Drottinn (notað um Jesú)”.
1.5 fagnaðarerindið: Fagnaðarerindið (sbr. guðspjall, á ensku “gospel”) er hvort tveggja í senn boðskapurinn um Jesú og boðskapur Jesú um Guðs ríki.
1.5 frá því þið tókuð við því: Hér rifjar Páll það upp, er hann kom fyrst til Filippí (Post 16.11-40).
1.6 allt til dags Jesú Krists: Á nokkrum stöðum í Filippíbréfi sínu ræðirPáll um endurkomu Krists (1.10; 2.16; 3.20,21) og væntir hennar jafnvel áður langt um líður (4.5). Sjá og “Endurkoman“.
1.7 í fjötrum mínum: Þegar Páll skrifaði Filippíbréfið, hefur hann annað hvort verið fangi í einhverri borg við Miðjarðarhafið austanvert, þar sem var rómverskat setulið (1.13), eða jafnvel í stofufangelsi í Róm (Post 28.16.30,31). Svartholið á myndinni hér að neðan er frá dögum Rómverja. Dyflissa þessi er í Filippí og gæti verið hluti fangelsisins þar sem Páll var hnepptur í varðhald (Post 16.23,24).
1.10 til dags Krists: Sjá athugagrein við 1.6.
1.12 lífvarðarhöllinni…í fjötrum: Lífvörðurinn var herdeild og gegndi því hlutverki að gæta keisarans í Róm og háttsettra embættismanna sem höfðu aðsetur í borgum heimsveldisins. Páll hefur áreiðanlega ekki látið tækifærið ónotað að segja varðmönnum sínum frá Jesú Kristi. Sjá og athugagrein við 1.7.
1.19 andi Jesú Krists: Í Filippíbréfinu nefnir Páll oft heilagan anda. Andinn hjálpar Páli (1.19), skapar samfélag meðal játenda Krists (2.1) og Guð er tilbeðinn í anda (3.3). Sjá og “Heilagur andi“.
1.23 fara héðan og vera með Kristi: Páll treystir því, að lærisveinar Jesú muni verða með honum eftir að jarðlífinu lýkur. Sjá og 2Kor 5.1-9 og “Eilíft líf“.
1.28mótstöðumenn: Vera má, að Páll eigi hér við þá, sem hann kallar “hunda” í 3.2, en það voru menn sem reyndu að leiða huga safnaðarfólksins frá fagnaðarerindinu, sem Páll hafði boðað. Eins kann að vera, að hann vísi til einhverra annarra, sem ollu usla meðal játenda Krists í Filippí.
1.30 Nú eigið þið í sömu baráttu sem þið sáuð mig heyja: Fyrst þegar Páll kom til Filippi var honum misþyrmt og hann hnepptur í varðhald (Post 16.16-40). Nú hefur hann enn verið fangelsaður. Páli er mótlætið tilefni til þess að þjóna Kristi.