6.1 Jesús fór um sáðlönd: Það var alsiða í Ísrael að soltnum ferðalöngum væri leyft að tína kornöx sem með vilja höfðu verið skilin eftir handa þeim á akrinum eftir uppskeruna (5Mós 23.25).

6.2 ekki leyfilegt á hvíldardegi: Sabbatinn er hvíldardagur gyðinga og hefst við sólsetur á föstudagskvöldi og lýkur þegar sól sest laugardaginn eftir. Allir gyðingar urðu að virða hvíldardagshelgina (2Mós 20.8-11; 5Mós 5.14). Hér sést að sumir farísear töldu það vera starf að tína kornöxin og þess vegna vanhelgun á hvíldardeginum.

6.3,4 Davíð…prestarnir einir: Davíð konungur var af ættkvísl Júda. Sjá 1Sam 21.1-6. Einungis prestarnir (afkomendur Arons, af Leví-ætt) máttu leggja sér skoðunarbrauðin (heilagt brauð) til munns. Sjá og 3Mós 24.8,9.

6.5 Mannssonurinn: Sjá athugagrein við 5.24. Orð Jesú og gjörðir hafa meira vægi en Lögmál Móse, að ákvæðunum um hvíldardaginn meðtöldum. Sjá og Heb 2.1-3.6.

6.6 samkunduna: Sjá athugagrein við 4.15.

6.7 fræðimenn og farísear: Sjá athugagrein við 5.17.

6.9 gera gott…á hvíldardegi: Sjá athugagrein við 4.16 (hvíldardegi). Þar sem sérhvert starf, sem innt var af hendi á hvíldardegi, var talið stríða gegn hvíldardagsboðinu, töldu farísearnir og fræðimennirnir að Jesús hefði framið lögbrot þegar hann læknaði manninn með visnu höndina. Jesús sýndi hér í verki, að það fer ekki í bága við guðslög að gera gott á hvíldardeginum.

6.12 til fjalls: Jesús fór upp í fjall til þess að biðjast fyrir áður en hann veldi postulana 12. Í Lúkasarguðspjalli verða merkisviðburðir á ferli Jesú gjarnan á fjöllum uppi (sjá og 4.5; 9.28 og 19.29).

6.13 lærisveina…tólf…postula: Lærisveinn er sá, sem situr við fótskör meistara síns og nemur af honum. Postuli er sá, sem sendur er að flytja öðrum boðskap meistarans og herma frá athöfnum hans. Postularnir voru 12 eins og ættkvíslir Ísraelsmanna. Síðar bættust fáeinir aðrir í þann hóp, svo sem Páll postuli (1Kor 9.1). Sjá og töfluna „12 postular Jesú“.

6.15 kallaður vandlætari: Vandlætari er þýðing á gríska orðinu „selóti.“ Selótar nefndist flokkur Gyðinga sem vildu hrinda yfirráðum Rómverja með uppþotum og skæruhernaði. Sjá og greinina „Mannlíf og landshættir á tímum Jesú: Þjóðir, valdhafar og stjórnmál“.

6.16 Ískaríot: Nafnið þýðir ef til vill „maðurinn frá Karíot“ (staðarnafn í Júdeu). En það gæti líka merkt „maður sem reyndist lygari“ eða „maðurinn sem sveik.“

6.17 gekk ofan…á sléttri flöt: Ekki er vitað hvar þetta var. Þetta efni Lúkasarguðspjalls (6.20-49) er stundum er stundum nefnt „Slétturæðan“. Margt sem Jesús kennir hér er mjög líkt því sem fram kemur í „Fjallræðu“ hans í Matteus 5.1-7.29.

6.20 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 4.43.

6.22 Mannssonarins: Sjá athugagrein við 5.24.

6.23 á himni: Hinir trúu hljóta að launum líf við hásæti Guðs á himnum.

6.29 Slái þig einhver á kinnina: Kinnhestur þótti gróf móðgun.

6.35 börn Hins hæsta: Í fjölskyldu Guðs er fólk oft kallað „börn,“ sama hver aldur þess er. Jesús segir, að börn Guðs muni koma fram eins og hann: Elska óvini sína, vera gjafmild og hafa samúð með öðru fólki.

6.41 bjálkanum í auga þínu: Jesús ýkir hér stórlega til þess að leggja áherslu á hve brýnt það er að líta í eigin barm áður en tekið er til við að dæma aðra.

6.42 Hræsnari: Gríska orðið, sem þýtt er á íslensku með „hræsnari“ er „hypocrites“ sem merkir „gortari,“ „lygari“ eða „leikari.“

6.44 fíkjur…vínber: Fíkjur eru ávöxtur trés með greinar og lauf, sem ná allt niður á jörðu, sætar á bragðið. Þær voru mikið etnar á dögum Jesú. Fíkjutré getur orðið allt að 9 metrar á hæð og ber ávexti tvisvar á ári. Vínber voru líka algeng fæða. Þau voru etin ný eða þurrkuð, en mest þó höfð til víngerðar. Þrúgurnar vaxa á löngum, renglulegum viði, sem festa þarf upp frá jörðu og krefst mikillar vökvunar og umhirðu. Sjá og Matt 12.33.