2.2 Filippí: Sjá innganginn að Filippibréfinu.
2.3 Boðun mín er ekki sprottin af villu…ég reyni ekki að blekkja neinn: Páll staðhæfði, að boðskapur hans væri beint frá Guði kominn. Hann kvað framkomu sína hafa verið hreina, réttvísa og óaðfinnanlega (2.9,10). Hann sagðist aldrei, eins og sumir aðrir, hafa haldið að mönnum annarlegum kenningum eða starfað í auðgunarskyni (2.5) eða þá til þess að afla sér vinsælda (2.6).
2.7 postuli: Postuli þýðir “sá sem sendur er” til þess að reka erindi eða inna af hendi ákveðið verkefni í nafni þess, sem sendir. Jesús valdi 12 postula úr lærisveinahópnum (Lúk 24.33; Post 1.2,3). Hann birtist Páli frá Tarsus í sýn og fól honum að boða heiðingjum fagnaðarerindið (Post 9.1-19). Upp frá því leit Páll á sig sem einn af postulum Jesú. (Gal 1.15,16; 1Kor 9.1).
2.9 munið eftir erfiði mínu og striti…vera ekki neinu ykkar til þyngsla: Páll var tjaldgjörðarmaður að iðn (Post 18.3). Talið er, að hann hafi unnið í þessu fagi á meðan hann dvaldi í Þessaloníku, gert við tjöld og leðurvöru. Sjá 1Kor 9.1-18.
2.12 kallar ykkur til ríkis síns og dýrðar: Páll segir, að allir þeir sem Drottinn hefur kallað, muni öðlast dýrð Jesú Krists, þegar Guðs ríki kemur. Sjá og 1Kor 15.20-24; 35-44.
2.13 orði Guðs, sem ég boðaði: Fagnaðarerindið, sjá athugagrein við 1.5.
2.14 söfnuði Guðs í Júdeu: Sjá “Kirkjan“. Vagga kristinnar kirkju stóð í Jerúsalem í Júdeu (Post 1,2). Fyrstu lærisveinarnir voru Gyðingar eins og sjálfur Jesús og postular hans tólf. Margra þeirra biðu voveifleg örlög (Post 3-7). Þegar Þessaloníkumenn tóku við boðskap Páls og gerðust lærisveinar Jesú Krists æstu heiðnir landar þeirra til uppþota gegn þeim (sjá Post 17.5).
2.14-15 Gyðingum er…líflétu Drottin Jesú: Hér á Páll við þá leiðtoga Gyðinga, sem snerust gegn Jesú og féllust ekki á að hann væri Guðs sonur. Þeir fengu rómverska landstjórann til þess að dæma Jesú til dauða og taka hann af lífi. Öll guðspjöllin fjögur lýsa handtökunni, réttarhöldunum og krossfestingunni (sjá t.d. Mrk 14.43-15.41). Hverjir þeir spámenn voru, sem Páll hefur hér í huga, er ekki ljóst. Sjá Post 7.52; Jer 26.20-24.
2.16 heiðingjanna: Heiðingja nefndu Gyðingar þá, sem ekki voru sömu trúar og þeir sjálfir. Páll postuli var af Guði kallaður til þess að boða fagnaðarerindið öllum mönnum, en einkum þó og sérílagi heiðingjunum (Post 9.15; 15.12; Gal2.1-9). Sjá “Heiðingjarnir“.
2.18 Satan: Satan þýðir “andstæðingur”;hann er líka nefndur “djöfullinn,” (einnig “freistarinn” sjá Matt 4.1-11; Jóh 13.2).
2.19 við komu hans: Sjá athugagrein við 1.10 (væntið sonar hans).
2.19 sigursveigurinn: Páli er hér í hug höfuðdjásn, sem hlotnaðist sigurvegurum á íþróttakappleikjum í Grikklandi til forna. Það var fléttað úr nýafskornum laufblöðum.