7.1 það sem þið hafið ritað: Korintumenn höfðu skrifað Páli til og lagt fyrir hann ýmsar spurningar. Sú, sem hann svarar hér, snertir kynferðismál. Hinar tekur hann til umfjöllunar í 7.25, 8.1, 12.1 og 16.1. Sumir safnaðarmenn töldu heimilt að stunda kynlíf utan hjónabands, en Páll vildi fortakslaust fara eftir lögmáli Móse, sem krefst þess strengilega að hjón séu hvort öðru trú. Aðrir álitu, að algert skírlífi styrkti andann og færði menn nær Guði. Páll vill ekki heldur taka undir það. Í 7.2-40 kynnist lesandinn viðhorfi hans og hollráðum, en hann tekur fram, að sumt af því sé „skoðun“ hans.

7.1 gott fyrir mann að vera ekki við konu kenndur: Eða „gott fyrir hjón að lifa ekki kynlífi.“

7.9 brenna af girnd: Eða „brenna í logum vítis.“

7.17 söfnuðunum: Orðið „söfnuður“ (kirkja) er á grískuekklesíaog er notað um sérhverja samkomu fólks. Í Nýja testamenti getur „söfnuður“ átt við alla lærisveina Krists, en einnig einhvern ákveðinn „söfnuð“ eins og hér. Sjá „Kirkjan“.

7.18,19 umskorinn: Sjá „Umskurn„. Í frumkirkjunni kröfðust sumir þess, að öll piltbörn væru umskorin. Svo sem í fleiri bréfum sínum lætur Páll hér í ljósi þá skoðun, að umskurn sé ekki skilyrði fyrir aðild að söfnuði Guðs (kirkjunni). Sjá og Róm 2.25-29; Gal 5.2-6.

7.22 þræll Krists: Páll áleit sjálfan sig og aðra lærisveina Krists vera þjóna hans og þræla (Róm 1.1; Fil 1.1). Allir eru þeir Krists, sem á hann trúa, vegna „verðsins“ sem fyrir þá var greitt. Allir eru jafnir í söfnuði Guðs, hvort heldur þeir eru „frjálsir menn“ eða „þrælar“ samkvæmt þjóðfélagsstiga rómverska heimsveldisins (Gal 3.26-29).

7.23 Þið eruð verði keyptir: Sjá athugagrein við 6.20.

7.25 einlífi: Eða „hreinir sveinar og meyjar.“

7.29 tíminn er orðinn naumur: Eða „Drottinn er í nánd“ eða „úrslitastundin nálgast.“ Sjá einnig athugagrein við 1.7.

7.34 Ógifta konan og mærin: Eða: „meyjarnar.“

7.36 heitmey…Giftist þau: Vers 36-38 má einnig þýða svo: „Ef faðir telur að hann geri dóttur sinni vansa með því að hindra að hún giftist, og ef hún er á giftingaraldri, þá geri hann eins og honum sýnist og gifti hana. Hann gerir ekkert rangt í því. En það er betra að hann sé staðfastur og ákveði að láta dóttur sína ekki ganga í hjónaband. Hann gerir því vel, ef hann leyfir henni að giftast og þó enn betur ef hann lætur hana áfram vera ógifta.“

7.40 anda Guðs: Sjá athugagrein við 12.3.