6.1 fyrir dóm ranglátra en ekki heilagra: Hinir „ranglátu“ eru hér líklega guðlausir dómarar heimsveldisins, hinir „heilögu“ aftur lærisveinar Krists í Korintuborg.
6.11 nafn Drottins Jesú Krists og andi vors Guðs: Sjá athugagreinar við 1.3 (Drottni Jesú Kristi) og 2.4 (Guðs anda). Hér kann að vera átt við skírn. Við skírnina laugast lærisveinar Krists, helgast og réttlætast fyrir Guði. Sjá „Skírn„.
6.12 Allt er mér leyfilegt: Sjá athugagrein við 5.1,2. Þótt enginn „frelsist“ við það eitt að hlýða lögmáli Móse, vísar það mönnum samt veginn í átt að líferni Guði að skapi og stendur jafnframt vörð um hag og velferð annarra.
6.13 Maturinn er fyrir magann: Hér verður Páli trúlega hugsað til þess, að sumir safnaðarmenn í Korintu neyttu kjöts af dýrum, sem fórnað hafði verið heiðnum goðum. Sjá nánar 8.1-13.
6.14 Guð…mun…uppvekja okkur: Sjá athugagrein við 1.17,18 (fagnaðarerindið). Sjá og „Eilíft líf“ og „Upprisa„.
6.15 líkamar ykkar eru limir Krists: Eins og andi Guðs býr í vinum Krists og þeir eru musteri Guðs (3.16,17; 6.11), þannig eru þeir og limir á líkama Jesú. Þeir ættu ekki að gera limi Krists að skækjulimum með því að stunda siðlaust kynlíf.
6.19 líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er: Sjá athugagreinar við 3.16 og 6.13. Sjá og athugagrein við 12.3.
6.20 Þið eruð verði keypt: Guð bar sjálfur fram hina fullkomnu fórn, þegar Jesús dó á krossinum fyrir syndir mannanna (Róm 3.25,26). Sjá og Heb 9.25-28.