Heilögum anda úthellt yfir lærisveina Jesú.
Þar sem Lúkasarguðspjalli sleppir, tekur Postulasagan við. Jesús er í þann veginn að stíga upp til himins og mælir lokaorðum við lærisveina sína. Hann segir þeim að staldra í Jerúsalem þangað til þeir íklæðist krafti frá hæðum. Hann segir þeim líka að heilagur andi muni efla þá til þess að prédika fagnaðarboðskap hans öllum þjóðum. Og svo sem fyrirheitið var, kom heilagur andi yfir postulana á hvítasunnudag.
Postularnir búnir undir kraft Guðs, gjöf Heilags anda
1.1 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég: Nafnið Þeófílus er grískt og merkir “vinur Guðs”. Því hafa sumir talið, að “Þeófílus” eigi við hvern þann, sem vill vera vinur og meðhaldsmaður Jesú. Hitt er þó líklegra, að Þeófílus hafi verið rómverskur embættismaður eða að öðrum kosti auðugur framámaður (verndari), sem lét skrifa fyrir sig Lúkarsarguðspjall og stóð straum af kostnaðinum við það. “Fyrri sagan” er Lúkasarguðspjall (sjá Lúk 1.1-4). Sjá og inngangsorð að Lúkasarguðspjalli og Postulasögunni.
1.2 varð upp numinn: Hér er átt við uppstigningu Jesú.
1.2 postulunum, sem hann hafði valið: “Postuli” þýðir sendimaður, sá sem falið er að flytja öðrum boð frá kennara eða jafnvel hópi manna. Hér er átt við þá tólf postula, sem Jesús valdi. Sjá Lúk 6.12-16; Post 1.12-13.
1.2 heilögum anda: Sjá nánar um Heilagan anda.
1.3 í fjörutíu daga: Talan 40 er þýðingarmikil í hugum Gyðinga. Sjá “Tölur í Biblíunni”.
1.3 Guðs ríki: Konungdómur Guðs, sem drottnar yfir alheimi, bæði í þessu lífi og hinu komanda. Í Matteusarguðspjalli ræðir í þessu sambandi um “himnaríki”.
1.4 Jerúsalem: Um þúsund árum áður en Jesús fæddist gerði Davíð konungur Jerúsalem að höfuðstað átrúnaðar og helgihalds Gyðinga. Sjá og Lúk 24.49.
1.4 sem faðirinn gaf fyrirheit um: Jesús ræðir oft um “föðurinn” og á þá við Guð (sjá t.d. Jóh 14). Hið sama gerir Páll postuli í mörgum bréfa sinna (Ikor 1.3; Gal 1.2-3; Fil 1.2). Sjá nánar um Heilagan anda.
1.5 Jóhannes: Sjá “Jóhannes skírari“.
1.5 skírði með vatni: Vatnsskírn Jóhannesar táknaði að skírnarþeginn sneri nú baki við syndum sínum; þær væru sem þvegnar burt (Lúk 3.3). Sjá og “Skírn“.
1.8 allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.
1.10 tveir menn í hvítum klæðum: Menn þessir voru að líkindum englar. Sjá Lúk 24.4. (Biblían bregður oft upp mynd af englum, þegar brýnu erindi skal komið til skila).
1.11 Galíleumenn: Postularnir voru frá Galíleu.
1.11 til himins: Sjá athugagrein við 1.2 (varð upp numinn).
1.12-13 Olíufjallinu: Olíufjallið er tindótt fjall skammt fyrir austan musterissvæðið í Jerúsalem. Á milli þess og borgarinnar er Kedrondalur. Fjallið er fjögurra kílómetra langur hryggur og hluti af fjallgarði sem liggur frá norðri til suðurs eftir miðbiki og suðurhluta Palestínu. Nafn sitt dregur það af olíuviði sem dafnar í sólríkum hlíðunum.
1.12-13 Pétur…Júdas Jakobsson: Sjá athugagrein við 1.2 (postulunum). Þeir voru ekki nema ellefu, eftir að Júdas Ískaríot stytti fyrir sér.
1.14 Konurnar…og María móðir Jesú og bræður hans: Konur voru meðal þeirra sem fylgdu Jesú eftir á ferðum hans. Um Maríu sjá Lúk 1.26-56; 2.1-52. Bræður Jesú voru synir Maríu og Jósefs. Sjá Mrk 6.3.
1.15 Pétur: Sjá athugagrein við 2.14.
1.16-17 fyrir munn Davíðs…um Júdas: Sjá athugagrein við 2.29-31.
1.18 keypti landspildu…iðrin öll lágu úti: Júdas fékk greidda 30 silfurpeninga fyrir að svíkja Jesú (Matt 16.15). Að sögn skilaði hann fénu (Matt 27.3-8), og hefur þá naumast keypt skákina. En prestarnir kunna að hafa gert svo.
Matteus segir Júdas hafa hengt sig (Matt 27.5). Lúkas segir aftur á móti að hann hafi steypst á höfuðið og brostið sundur í miðju svo að iðrin öll lágu úti. Það kann að hafa gerst þegar hann féll eða var skorinn niður úr snörunni. Má og vera að Júdas hafi látið fallast á oddhvasst tól, þar eð “hengdi” getur líka þýtt “stakkst í gegn.”
1.19 Akeldamak á tungu þeirra: Átt er við arameísku.
1.23 Jósef, kallaðan Barrabas…Matthías: Talan tólf var ginnheilög með Gyðingum. Jesús hafði valið sér tólf postula, jafnmarga og ættkvíslir Ísraelsmanna. Því þótti postulunum einboðið að kjósa mann að koma í staðinn fyrir Júdas. Sjá og “Tölur í Biblíunni”.
Fátt er vitað um Jósef Barrabas. Jústus var hið rómverska nafn hans. Matthías hlýtur að hafa verið lærisveinn allt frá því Jesús hóf að prédika og vinna kraftaverk. Lítið annað er um hann vitað. Þó herma munnmæli, að hann hafi verið líflátinn fyrir þá sök að hafa fylgt Jesú að málum.
1.26 Þeir hlutuðu um þá: Þeir “vörpuðu hlutkesti,” sem til forna var alsiða í Austurlöndum nær. Postularnir hafa líklega notast við merktar steinvölur ellegar búta af trjágreinum. Að baki bjó sú hugsun, að með þessu móti kysi Drottinn, en ekki sjálfir þeir, þann mann er koma skyldi í stað Júdasar.