Spámæli Jóhannesar og fyrirbæn

Jóhannes segir frá því að Jesús Kristur sendi engil sinn að birta honum opinberun, sem Jesús hafði frá Guði hlotið (1.1,2). Hann biður þess, að lesendur sínir megi öðlast náð og frið og kynnir síðan meginefni ritsins: Jesús hefur sigrað dauðann og er ofar öllu jarðnesku valdi og mun aftur koma að dæma þjóðirnar.

 1.1 Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum…sendi engil sinn: Kristur er gríska orðið yfir „Messías“ á hebresku og þýðir „hinn smurði“ þ.e. hinn útvaldi. „Engill“ (á grísku: angelos) þýðir „sendiboði.“

1.1 Jóhannesi, þjóni sínum: Jóhannes kynnir sig án föðurnafns. Af því kann að mega ráða, að hann hafi verið vel kunnur lesendum sínum í söfnuðum sjö. Rómversku yfirvöldin hafa að líkindum sent Jóhannes í útlegð á eynni Patmos (1.9) til þess að hegna honum fyrir að prédika fagnaðarerindið um Jesú í söfnuðum Asíu.

1.3 Sæll er sá sem les þessi spádómsorð: Þetta er hið fyrsta af sjö sæluboðum í Opinberunarbók Jóhannesar (sjá Opb 14.13; 16.15; 19.9; 20.6; 22.7; 22.14). „Spádómsorð“ er hér það sem Jóhannesi var birt í vitrunum, þ.e. opinberun Jesús Krists, frá Guði komin.

1.4 til safnaðanna sjö í Asíu: „Asía“ er hér landsvæði í rómverska heimsveldinu austanverðu, hluti af því sem nú er Tyrkland. Söfnuðirnir sjö eru fulltrúar allra safnaða í Asíu með kostum sínum og göllum.

1.5 frumburður upprisunnar frá dauðum: Syndin leiðir til dauða (Róm 3.23), en með dauða sínum hefur Jesús sigrað dauða okkar og endurnýjað lífið með upprisu sinni. Sjá „Synd“.

Kirkjusöfnuðirnir sjö í sýn

Jóhannes segir frá vitrun sinni um hinn upprisna Drottin og flytur söfnuðunum sjö í Asíu þann boðskap, sem honum var á hendur falinn (1.9-20). Síðan fylgja skilaboð til hvers safnaðar fyrir sig (2.1-3.22).

1.9 á eynni Patmos: Patmos er grýttur og fjöllóttur hólmi á Eyjahafi um 50 km. úti fyrir strönd Litlu-Asíu og nefnist Patínó núna. Þangað sendu Rómverjar stundum í útlegð þá, sem voru andsnúnir keisaranum.

1.10 á Drottins degi: Á fyrsta degi vikunni, þ.e. sunnudegi. Jesús reis upp frá dauðum á sunnudegi, og er sá dagur helgi- og hvíldardagur kristinna manna.

1.10 í anda: Jóhannes hefur fyllst heilögum anda. Það, sem Drottinn opinberaði honum, hefur því að líkindum birst honum í draumi eða í leiðslu algleymis, „hrifningu í anda.“ Sjá „Heilagur andi“.

1.11 Efesus…Laódíkeu: Efesus, í héraðinu Jóníu, var höfuðborg rómverska skattlandsins Asíu og þaðan var skemmst til Patmos. Efesus var blómleg verslunarborg og miðstöð iðnaðar og lista. Verndargoð borgarinnar var meygyðjan Artemis. Musteri hennar var stærsta bygging Grikklands til forna, talið með „sjö undrum“ veraldar.

1.12 sjö gullljósastikur: Myndin hér að neðan sýnir sjöarma ljósastiku úr gulli (á hebresku menorah) eins og höfð var í samfundatjaldinu og síðar í musterinu í Jerúsalem (sjá 2Mós 25.31-39; Sak 4.1-6). Hér tákna sjö ljósastikur söfnuðina sjö (1.20). Þeir eru að sínu leyti fulltrúar gjörvallrar Guðs kristni (sjá „Tölur í Biblíunni“), enda Opinberunarbókin ætluð játendum Krists um víða veröld.

1.13 mannssyni: Sjá „Mannssonurinn„.

1.16 sjö stjörnur: Stjörnurnar eru englar safnaðanna sjö (1.20). Sjá og Matt 17.1,2.

1.18 lykla dauðans og heljar: Vald yfir dauðanum (Jóh 5.28,29).