16.1 farísear og saddúkear:Orðið „farísei“ kemur úr hebresku og þýðir líklega „hinn aðskildi“ eða „sá hreini,“ þótt ekki sé það vitað með vissu. Farísear fengust við að kenna lögmálið og rannsaka helgirit gyðinga. Saddúkear voru flokkur auðugra gyðinga og draga trúlega nafn sitt af Zadok, en svo nefndist fjölskylda heldri klerka (sjá 2Sam 20.25; 1Kon 1.39-45). Þeir héldu því fram að brýnast alls væri að ganga í musterið og færa þar fórnir. Nánar í greininni „Mannlíf og landshættir á tímum Jesú: Þjóðir, valdhafar og stjórnmál„.

16.4 tákn Jónasar: Sjá athugagrein við 12.39-41. Sjá og Matt 12.39; Lúk 11.29.

16.6-12 súrdeig farísea og saddúkea:Þegar svolitlu geri er blandað saman við vatnsdeig, þá hefast deigið (sjá athugagrein við 13.33). Það, sem Jesús á við hér, er að falskenningar farísea og saddúkea kunni að hafa lík áhrif á Ísraelsþjóðina og gerögnin, sem veldur því að allt deigið lyftir sér. Sjá og Matt 14.17-21: 15.34-38: Lúk 12.1.

16.13 Sesareu Filippí:Þessi borg var um 40 km. norðan við Galíleuvatn. Þar sprettur vatnslind upp í helli einum. Hann var því álitinn helgur staður. Grikkir nefndu borgina Paneas eftir gríska skógargoðinu Pan. Ágústus keisari í Róm færði Heródesi mikla borgina að gjöf. Sonur Heródesar, Filippus, endurbyggði hana síðar og gaf honum nýtt nafn til heiðurs keisaranum og sjálfum sér.

16.14 Elía….Jeremía:Sjá athugagrein við 11.14 (Elía). Jeremía var spámaður í Júda árunum kringum 626 til 586 f. Kr. Um sama leyti reyndi Jósía konungur merka siðbót í trúarefnum. Jeremía var í litlum metum hjá fjölda fólks fyrir að halda því fram að Júdamönnum yrði refsað og þeir gersigraðir af því að þeir hefðu syndgað gegn Guði. Sjá og Matt 14.1,2; Mrk 6.14; Lúk 9.7,8.

16.16 Kristur:Sjá athugagrein við 1.17. Sjá og Jóh 6.68,69.

16.18 kirkju:Matteus er hinn eini guðspjallamannanna fjögurra sem notar orðið „kirkja.“ Gríska orðið, sem á íslensku er útlagt „kirkja“, þýðir „hópur fólks sem kallað er saman,“ eða með öðrum orðum: á sér sameiginlegt markmið. Kirkjan var hinn nýi guðslýður, sem Jesús var að „reisa.“

16.20 að segja engum að hann væri Kristur: Sjá athugagrein við 12.16.

16.21 Jerúsalem:Höfuðborg Júdeu, þar sem ættbálkur Júda nam land. Allt frá stjórnarárum Davíðs konungs var Jerúsalem miðstöð guðsdýrkunar Ísraelsmanna. Rómverjar réðu Jerúsalemsborg á dögum Jesú en leyfðu gyðingum að tilbiðja í musterinu sem hafði verið endurbyggt tvisvar síðan í tíð Salómons. Jesús fór til Jerúsalem til þess að koma boðskap sínum á framfæri, þótt hann vissi að hann myndi mæta andstöðu trúarleiðtoga landa sinna.

16.23 Satan:Nafnið merkir „andstæðingur“ Satan var líka kallaður djöfullinn („ákærandi“) og höðingi illu andanna (sjá 4.1 og 9.34).

16.25 lífi:Í versum 25 og 26 er sama gríska orðið (psyche) notað til þess að þýða á íslensku „líf“ og „sál.“

16.27Mannssonurinn: Sjá athugagrein við 8.20.