9.1 Nokkrir þeirra sem hér standa munu eigi deyja fyrr en þeir sjá Guðs ríki: Sjá athugagrein við 1.15 (Guðs ríki). Verið getur, að Jesús eigi hér við það er hann ummyndaðist uppi á fjallinu (9.2-8). En eins kann að vera að hann vísi hér til dauða síns og upprisu.

9.2 Pétur, Jakob og Jóhannes: Sjá athugagreinar við 1.16 (Símon) og 1.19 (Jakob og Jóhannes). Þessir þrír eru oft í fylgd með Jesú þegar þýðingarmiklir atburðir verða (1.29; 5.37; 14.33).

9.4 Elía og Móse: Guð fól Móse að leiða hebrea út úr þrælahúsinu í Egyptalandi (2Mós 3-14) og kunngjöra þjóðinni boðorðin tíu. Sjá og „Móse“. Elía var spámaður sem brýndi fyrir löndum sínum að tilbiðja Guð einan. Móse og Elía eru fulltrúar hins miklvægasta í regluritasafni gyðinga (Gamla testamenti), þ.e. lögmálins og spámannanna. Þessir merkisbera tvo valdi Guð til þess að kenna lýð sínum nýja lífsháttu, á sama hátt og Jesús kenndi lærisveinum sínum.

9.5 tjaldbúðir: Pétur vildi að dýrleg stundin á fjallinu myndi vara við.

9.9 Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum: Sjá athugagreinar við 1.44 (Gæt þess að segja engum neitt) og 2.10 (Mannssonurinn). Jesús vissi að fólkið vænti stjórnmálaleiðtoga er ríkja mundi í landinu líkt og konungur, eða að öðrum kosti kraftaverkamanns. En köllun Jesú var annars konar; verk hans yrði þá fyrst á enda kljáð, er hann dæi til þess að vinna sigur á syndinni og sigraði dauðann, þegar hann yrði reistur upp frá dauðum.

9.11 að Elía eigi fyrst að koma: Sjá athugagrein við 6.15 (Elía). Þess var vænst, að Elía kæmi aftur áður en Messías Guðs birtist, og hafa því margir velt því fyrir sér hvers vegna þeir hefðu ekki enn séð Elía, ef trúa skyldi því að Jesús væri Messías.

9.12 hvernig er ritað…?: Átt er við helgirit gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti.

9.12,13 Víst kemur Elía fyrst…Elía er kominn: Sjá athugagrein við 6.15. Jesús kann að eiga við Jóhannes skírara (Matt 11,14) , þegar hann segir að Elía hafi þegar komið og mátt mæta hörðu (9.13) Sjá og 1Kon 19.2,10.

9.14 til lærisveinanna: Átt er við Pétur, Jakob og Jóhannes (sjá 9.2).

9.14 fræðimenn: Sjá athugagrein við 12.38.

9.17 illum anda: Sjá athugagrein við 3.30. Drengurinn virðist hafa verið haldinn einhvers konar flogaveiki.

9.25 óhreina andann: Sjá athugagrein við 3.30.

9.30 Galíleu: Galílea hét norðurhluti Palestínu, héraðið fyrir vestan ána Jórdan og Galíleuvatnið. Það tilheyrði fyrrum Norðurríki Ísraels, sem Assýringar lögðu undir sig árið 722 f. Kr. Seinna réðu því Babýlóníumenn, Persar, Grikkir og Sýrlendingar. Rómverjar innlimuðu Galíleu í heimsveldi sitt og ríktu þar um jarðvistardaga Jesú. Jesús ólst upp í Nasaret var, litlu þorpi, sem aldrei er nefnt á nafn í Gamla testamenti. Sjá og athugagrein við 1.5 (Áin Jórdan).

9.31 Mannssonurinn: Sjá athugagrein við 2.10. Berið þetta vers saman við 8.31. Lærisveinarnir skildu ekki hvers vegna Jesús þyrfti að deyja (9.32).

9.33 Kapernaúm: Sjá athugagrein við 1.21 (Kapernaúm).

9.35 þá tólf: Sjá athugagrein við 3.16-19.

9.37 tekur við einu slíku barni: Sjá athugagrein við 10.13.

9.38 illa anda: Sjá athugagrein við 3.30. Jesús hafði gefið lærisveinum sínum vald til þess að reka út illa anda (3.14,15; 6,7).

9.42 tælir til falls: Sjá athugagrein við 1.4 (láta skírast).

9.42 mylnustein: Þungur steinn, sem múlasni dró yfir kornöxin á þreskivellinum til þess að skilja hismið frá hveitinu.

9.43-44 hönd þín tælir þig…í hinn óslökkvanda eld: Jesús tekur stundum djúpt í árinni til þess að leggja þunga áherslu á merkingu orða sinna. Hér bendir hann á, að líkamlegar þjáningar sem því fylgja að missa hönd eða auga séu ekki þungbærar miðað við kvalirnar í helvíti. Sjá og Matt 5.30. Í Nýja testamenti er talað um afdrif ranglátra í ríki dauðra (helju), sem er logandi kvalastaður (fremur þó ástand en staður). (Matt 5.22; Lúk16.23,14; Opb 20.14). Sjá og „Eldur“  og „Helja“.

9.43,44 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki: Vantar í sum handrit.

9.45,46 kastað í helvíti: Sum handrit bæta við „þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.“

9.49 eldi saltast: Sum handrit bæta við „sérhver fórn verður söltuð með salti.“ Merkingin í þessu versi kann að vera sú, að lærisveinar Krists verði að þjást vegna trúar sinnar.

9.50 Salt: Salt var notað til þess að forða matvælum frá skemmdum og bragðbæta. Að „saltast eldi“ gæti þýtt, að lærisveinar Jesú varðveittust hreinir og „hafið salt í sjálfum ykkur“ að þeir skuli halda frið sín í milli. Sjá og Matt 5.13.