4.1 Jórdan…eyðimörkinni: Óbyggðir Júdeu lágu rúma 30 kílómetra í austur frá fjalllendinu umhverfis Jerúsalem og niður að ánni Jórdan og Dauðahafinu.
4.1 fjörutíu daga: Dagarnir fjörutíu og næturnar sem Jesús dvaldi í eyðimörkinni koma nákvæmlega heim við þann tíma sem Móses (2Mós 24.18; 34.28) og Elía (1Kon 19.8) vörðu til þess að undirbúa starf sitt meðal Guðs lýðs. Sjá og “Tölur í Biblíunni”.
4.2 Ekki neytti hann neins: Sjá athugagrein við 2.37.
4.3 djöfullinn:Á dögum Jesú töldu menn að djöfullinn (Satan) væri höfðingi afla, sem væru fjandsamleg Guði og Guðs lýð.
4.14 Galíleu:Heimahérað Jesú. Sjá athugagrein við 1.26.
4.14 krafti andans: Sjá Heilagur andi. Í Lúkasarguðspjalli er þess oft getið að bæði Jesús og aðrir fyllist krafti anda Guðs.
4.15 samkundum:Gríska orðið er “sýnagóga”, sem þýðir “að koma saman.” Sjá og “Samkundurnar”.
4.16 Nasaret: Sjá athugagrein við 1.26.
4.16 hvíldardegi: Sjöundi dagur vikunnar (laugardagur) er hvíldardagur Gyðinga. Á þeim degi hvíldist Guð eftir að hann hafði skapað heiminn (1Mós 2.2,3).
4.16 til að lesa: Hér les Jesús upp úr helgiritum Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti.
4.17 bók Jesaja spámanns: Jesaja var spámaður í Júdeu í kringum 740 til 701 f. Kr.
4.20 bókinni: Helgirit Gyðingar voru skrifuð á svonefndar bókrollur úr papýrusi eða pergamenti (bókfell, unnið úr kinda- eða geitaskinni), þau voru því lengjur, er vafðar voru upp á kefli.
4.23 Kapernaúm: Fiskiþorp við Galíleuvatnið norðanvert, þar sem lá fjölfarin verslunarleið milli Egyptalands og Sýrlands. Í samtíma Jesú var Kapernaúm bækistöð rómverskra hermanna sem litu eftir innheimtu skatta. Jesús flutti frá Nasaret til Kapernaúm þegar hann var orðinn uppkominn.
4.25-27 margar voru ekkjur…Naaman: Sjá 1Kon 17.1-15 og 2Kon 5.1-14. Bæði ekkjan í Sarepta og Naaman Sýrlendingur voru heiðingjar. Jesús rifjar þetta upp til þess að sanna, að Guði er annt um alla menn.
4.27 líkþráir:Orðið “líkþrá” var notað um húðsjúkdóma af ýmsu tagi. Samkvæmt 3Mós 13 og 14 er maður haldinn einhverjum þessara sjúkdóma talinn óhreinn og af þeim sökum útilokaður frá helgihaldinu. Sá sem snerti sjúklinginn varð og óhreinn og þurfti að gangast undir sérstaka hreinsunarathöfn til þess að mega teljast til safnaðarins aftur. Sjá og “Hreinsanir (hreint og óhreint)”.
4.33 samkunduhúsinu:Sjá athugagrein við 4.15.
4.33-35 óhreinum, illum anda: Óhreinir andar voru taldir vera í þjónustu Satans. Á dögum Jesú álitu menn að slíkir andar yllu sjúkdómum og geðtruflunum. Þessi bar kennsl á Jesú og kallaði hann “hinn heilaga Guðs.” Sjá og greinina “Kraftaverk, töfrar og læknisdómar”.
4.38 hús Símonar: Símon, sem líka gékk undir nafninu Pétur, var einn hinna fyrstu lærisveina Jesú (5.3-10), síðar postuli.
4.41 sonur Guðs: Sjá “Sonur Guðs”.
4.41 Kristur: Sjá athugagreinar við 2.11 og 3.15.
4.43 fagnaðarerindið um Guðs ríki: Í Lúk 4.18,19 skýrir Jesús frá því fyrst, hvers vegna hann er af Guði sendur. Þetta eru “góðu fréttirnar.” Guðs ríki er þar sem menn hlýða vilja Guðs með því að þjóna öðrum og flytja fagnaðarerindið.
4.44 Júdeu: Gríska nafnið á suðurhluta Palestínu, sem áður hét Júda. Á dögum Jesú skiptist Palestína í þrjú héruð, Júdeu, Samaríu og Galíleu. Höfuðborgin og miðstöð guðsdýrkunar Gyðinga var Jerúsalem í Júdeu.