5.1 auðmenn: Höfundur Jakobsbréfsins amast ekki við eignum og fjármunum í sjálfu sér, enda geta stöndugir menn notað peninga sína öðrum til styrktar og hjálpar. Hitt er verra, þegar fólk elskar féð og lætur sér fátt um þarfir fátæklinga og bónbjargamanna. Það er sú fégirnd, sem er „rót allt ills“ (1Tím 6.10). Sjá og athugagrein við 1.10.

5.4 Launin, sem þið hafið haft af verkamönnunum: Alsiða var að bændur réðu fátæklinga til sáningar og uppskeru. Bæði í lögmáli Móse og kenningu Jesú Krists er talið afar brýnt að staðgreiða daglaunamönnum sanngjörn laun (3Mós 19.13; 5Mós 24.14; Matt 20.1-16).

Þreyið í þolinmæði, auðsýnið góðvild og látið ekki af að biðja.

Hinir kristnu eru hvattir til þess að bíða þess í þolinmæði að Drottinn komi aftur. Þeir eru beðnir að sverja enga eiða. Og biðja skulu þeir fyrir öðrum, einkum þeim sem villst hafa frá sannleikanum.

5.7 þangað til Drottinn kemur: Orðin „endurkoma Drottins Jesú“ eru notuð um það, þegar Jesús kemur aftur til þess að dæma lifendur og dauða og setja á stofn Guðs ríki. „Endurkoma“ (á grísku „parúsía“) kemur nokkrum sinnum fyrir í Nýja testamenti. „Parúsía“ þýðir raunar „koma“ og er notað t.d. í 1Kor 15.23 og 1Þess 3.13. Í rómverska heimsveldinu á fyrstu öldinni eftir Krists burð var orðið haft um það, þegar konungur eða keisari sýndi sig með því að stíga fram á svalir eða út á tröppur hallar sinnar, fagnað af fjöldanum, og ennfremur um heimsókn þjóðhöfðingja, sem mannfjöldinn hyllti. Sjálfur segist Jesús koma aftur til þess að taka lærisveina sína til sín, til þess að þeir séu og þar sem hann er, á þeim stað, sem hann hefur búið þeim (Jóh 14.1-3). Þá segir og höfundur Hebreabréfsins, að Kristur muni birtast aftur „til þess að frelsa þá sem bíða hans“ (Heb 9.28). Sjá og „Endurkoman„.

5.9 svo að þið verðið ekki dæmd: Sjá athugagrein við 2.13.

5.10 spámennina: Átt er við spámenn Ísraelsþjóðarinnar til forna, en þeir máttu oft líða mikið fyrir það, að þeir fluttu þjóðinni orð Guðs. Gott dæmi um slíkan spámann er Jeremía, sem uppi var um 6 öldum fyrir Krists burð (Jer 19.14-20.2). Rit spámannanna eru varðveitt í helgiritasafni Gyðinga (Gamla testamenti) og eru nú um 2400 til 2800 ára.

5.11 þolgæði Jobs: Jobsbók í Gamla testamenti segir frá auðugum manni, sem mátti sjá á bak börnum sínum og eignum og missti loks sjálfur heilsuna (Job 1.1-2.10). Þótt Job skildi ekki, hvers vegna allt þetta var á hann lagt, hætti hann samt ekki að trúa á Guð og treysta honum (Job 19.23-27; 42.1-6), enda kom Guð honum til hjálpar um síðir (Job 42.7-17). Sjá og Slm 103.8.

5.14 smyrja hann með olíu í nafni Drottins: Ólífuolía var stundum notuð í lækningaskyni til forna. Sjá Mrk 6.13; 1Kor 12.27,28.

5.14 öldunga safnaðarins: Eða „safnaðarleiðtoga“ eða „presta.“ Hér er að öllum líkindum átt við þá sem höfðu verið valdir (vígðir) til þess að sinna ákveðnum verkefnum innan safnaðarins.

5.17 Elía: Hann sagði Akab konungi í Ísrael að Drottinn mundi láta þurrka ganga í landinu og það skrælna upp af því að Akab dýrkaði og tilbað Baal, sem var annað æðsta goð Kanverja. Sjá 1Kon 17.1-18.46.