2.3 „Settu þig hérna í gott sæti“: Kristnir menn í frumkirkjunni hafa ef til vill freistast til þess að hampa þeim auðugu og valdamiklu í þeirri von að söfnuðurinn fengi í staðinn að njóta verndar og fjárhaglegs stuðnings. En höfundur Jakobsbréfs varar lærisveina Jesú við því að gera upp á milli ríkra og fátækra. Sjá og Lúk 14.7-14.
2.8 hið konunglega boðorð Ritningarinnar: „Þú skalt elska náunga þinn…“: Þetta boðorð, sem skrifað stendur í 3Mós 19.18, kallaði sjálfur Jesús „æðst boðorða“ (Mrk 12.28-31).
2.11 lögmálið: Lögmál Móse, sem Drottinn lagði fyrir þjóðina í Sínaíeyðimörkinni (sjá 2Mós 19-35). Í lögmálinu voru fyrirmæli um það, hvernig menn skyldu haga lífi sínu og guðsdýrkun, og hversu þeir skyldu koma fram hver við annan.
2.12 lögmáli frelsisins: Sjá athugagrein við 1.25.
2.13 í dóminum: Í bréfum Nýja testamentis er oft minnst á daginn þegar Jesús kemur aftur (1Kor 15.20-28; 1Þess 4.13-18). Á þeim degi dæmir og Drottinn þjóðirnar (Matt 13.47-50; 25.31-46). Sjá og „Endurkoman„.
2.13 Í dóminum má miskunnsemin sín mest: Eða „Verið miskunnsöm og þá mun ykkur verða sýnd miskunn á degi dómsins.“
2.14-18 trú…trúin ein og sér dauð vanti hana verkin: Sjá athugagrein við 1.3. Jakob ber saman tvær tegundir af trú. Önnur er sönn trú í verki, en hin er aðeins „eftirlíking“ af trú. Hún er án verka og þess vegna dauð.
2.19 illu andarnir: Illir andar, annarleg öfl að verki og lúta valdi djöfulsins. Sjá og Lúk 4.31-34.
2.21 Abraham…Ísak: Abraham var ættfaðir Ísraelsmanna. Guð hét honum því að hann skyldi eignast fjölda niðja og mundu þeir verða mikil þjóð (1Mós 15.4,5; 17.1-5). Abraham sýndi einstæðan trúarstyrk, þegar hann ætlaði að hlýða fyrirmælum Drottins með því að fórna Ísak syni sínum (1Mós 22.1-8). Drottinn kom veg fyrir þetta á síðustu stundu og hrósaði Abraham fyrir trúarstaðfestu hans. Sjá nánar „Abraham„.
2.25 Rahab: Rahab var skækja í Jeríkó í Kanaanslandi. Hún liðsinnti tveimur njósnurum Ísraelsmanna, sem höfðu laumað sér inn í Jeríkó áður en her landa þeirra kom þangað og lagði borgina undir sig.