5.7,8 Hver…ekki frá þeim sem kallaði ykkur: Sjá athugagrein við 1.7. Orðin „þeim sem kallaði ykkur“ eiga við sjálfan Guð (1.6).

5.9 Lítið súrdeig: Ger er lítill gulleitur sveppur. Þegar hann er settur saman við hveiti og vatn, lyftir deigið sér. Páll hefur í huga, að einn friðarspillir eða fámennur hópur villumanna sé nóg til þess að allt safnaðarfólk í Galatalandi láti glepjast.

5.11 enn þá að prédika umskurn: Óróaseggirnir hafa haldið því fram, að Páll væri meðmæltur umskurn, en hann neitar því.

5.12 aflima sig: Sjá „Umskurn„. Hér færir Páll gróflega í stílinn.

Lokaorð

Páll endar Galatabréfið með ádrepu um þá, sem heimta af kristnum mönnum í Galatalandi, að þeir láti umskerast. Hann minnir Galata enn einu sinni á það sem mest á ríði fyrir hinn kristna, en það sé að deyja syndinni og verða nýr maður fyrir trúna á Jesú Krists.

5.16 Lifið í andanum: Sjá athugagrein við 3.2.

5.18 undir lögmáli: Sjá athugagrein við 2.16. Hér er helst að heyra á Páli, að eigingjarnar hvatir og Móselög séu hvor tveggja jafn ill. Hann á við að verk holdsins leiði til dauða. Og þeir hafa rangt fyrir sér, segir hann, sem hyggja að hlýðni við lögmál Móse bjargi þeim lífi þeirra.

5.20 Skurðgoðadýrkun, fjölkynngi: Á ýmsum skeiðum í sögu sinni sneru Ísraelsmenn baki við Guði og tóku í staðinn að tilbiðja skurðgoð (Jes 44.1-20). Heiðingjarnir (að meðtöldum Grikkjum, Rómverjum og Galötum) dýrkuðu þannig marga guði og gyðjur. Sjá „Guðir og gyðjur Grikkja og Rómverja„. Með fjölkynngi kann hér að vera átt við það, er menn suðu sér meðul og mixtúrur í því skyni að fremja seið og forneskju.

5.21 Guðs ríki: Konungdómur Drottins yfir allri veröld, bæði hér og í komandi heimi.

5.25 andinn hefur vakið okkur til lífs: Sjá athugagrein við 3.2. Heilagur andi lífgar, lögmálið ekki. En lögmálið gerir menn meðvitaða um syndina.