1.1 Páll, postuli Krists Jesú: Sjá “Páll (Sál) frá Tarsus“.
Postuli er sá, sem sendur er að flytja öðrum boðskap meistara síns og herma frá orðum hans og athöfnum. Jesús sendi postula sína 12 til þess að boða fagnaðarerindið í öllum heimi (Matt 28.18-20; Post 1.8).
Nafnið “Jesús” var algengt á tímum Nýja testamentis. Það er grísk mynd hebreska nafnsins “Jósúa.” “Kristur” er dregið af gríska orðinu christos, en það er á hebresku “Messías”, sem þýðir “hinn smurði” eða “hinn útvaldi.”
1.1 Guði frelsara vors: Í Fyrra og Síðara Tímóteusarbréfi, og einnig í Títusarbréfi, er orðið “frelsari” bæði haft um Guð (1Tím 1.1; 2.3; 4.10;Tít 1.3; 2.10) og Jesú (2Tím 1.10; Tít 1.4; 2.13).
1.2 Tímóteusi: Sjá innganginn að 1Tím.
1.2 Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum: Jesús kallaði Guð gjarnan “föður” (sjá t.d. Jóh 14). Eins gerir Páll postuli í mörgum bréfa sinna (Róm 1.7; 1Kor 1.3; Gal 1.2,3).
Sjá og athugagrein við 1.1 (Páll, postuli Krists Jesú) og “Drottinn (notað um Jesú)“.
1.3 Makedóníu…Efesus: Páll hafði prédikað fagnaðarerindið um Jesú Krist í Þessalóníku, Filippí og Bereu, sem allar voru í Makedóníu (Post 16.6-17.14). Einhvern tíma hafði hann beðið Tímóteus að “halda kyrru fyrir” í Efesus, sem var stórborg í Listlu-Asíu.
1.3,4 villukenningar…kynjasögum…ættartölum: Villukenningarnar, sem ræðir um hér, kunna að hafaverið goðsagnir um gríska og rómverska guði og gyðjur. Ættartölurnar mega vel hafa verið niðjatölin, sem getur að lesa í Fyrstu Mósebók. Ævintýri af gyðingafólki, varðveitt í helgiritum, áttu í þennan tíma miklum vinsældum að fagna. Þá voru og á kreiki hugmyndir um að einungis þeir er hlotnaðist “æðri viska” gætu losnað úr viðjum líkamans og efnisheimsins. Sjá 4.7; sjá og 2Tím 4.4.
1.7 lögmálið: Sumir lærimeistarar reyndu að sannfæra lærisveina Jesú um það, að þeir yrðu að hlýðnast öllum reglum Móselaga um mataræði og umskurn, ef þeir ættu að geta talist gjaldgengir meðal Guðs lýðs. Sjá og Róm 2.17-29; Gal 3.1-20.
1.11 fagnaðarerindinu: Boðskapurinn um Jesú Krist og boðskapur Jesú um Guðs ríki.
1.16 eilífs lífs: Páll skilgreinir eilíft líf þannig, að það sé fólgið í því að rísa upp til nýs lífs með Kristi (Róm 6.4-8; 1Kor 15.20-55). Sjá “Eilíft líf“.
1.18 barnið mitt, Tímóteus: Sjá innganginn að 1Tím.
1.18 spádómsorð: Hér er trúlega vísað til kristinna spámanna, sem minnst er á í 4.14. Spámenn leiðbeindu oft um það, hvernig Guð vildi að börn hans höguðu lífi sínu.
1.19 góða samvisku: Hrein samviska var og er öllum mönnum nauðsyn, og þá ekki síst safnaðarleiðtogum (1.5; sjá og 3.9; 4.2; 2Tím 1.3 og Tít 1.15).
1.20 Hýmeneus og Alexander: Hýmeneus er nefndur á nafn í 2Tím 2.17, en hann mun hafa haldið því fram, að endurkoma Jesú væri þegar um garð gengin. Af Alexander koparsmið segir í 2Tím 4.14, en ekki er vitað hvað hann gerði Páli á móti skapi.