12.1 gáfur andans: Sjá “Gáfur andans“.
12.2 létuð þið leiða ykkur til mállausra skurðgoðanna: Margir hinna kristnu í Korintu höfðu tilbeðið ýmsa guði áður en þeir gerðust lærisveinar Jesú. Í borginni voru mörg hof og ölturu helguð þessum goðum. Sjá athugagreinar við 8.7 og 8.10.
12.3 Guðs anda: Átt er við heilagan anda, kraft Guðs að starfi hér í heimi. Heilagur andi huggar lýð Guðs, hjálpar honum og minnir hann á allt það sem Jesús sagði. Hér lýsir Páll einstökum gáfum andans. Hann segir líka, að andinn hafi gefið sér styrk til þess að prédika, jafnvel þótt hann óttaðist, að Korintumenn teldu heimsku boðskapinn um að Jesús hefði dáið á krossi fyrir þá (2.3). Sjá og Róm 12.6-8 og “Heilagur andi“.
12.10 spádómsgáfu: Þeir sem hlutu spádómsgáfu fluttu áreiðanlegan boðskap frá Guði.
12.10 tala tungum…útleggja tungutal: Þeir sem þegið höfðu þessar sérstöku náðargáfur töluðu öðrum óskiljanlegt tungumál, sem þeir einir gátu þýtt, sem innblásnir voru af anda Guðs. Þetta er kallað “tungutal” (glossolali). Sjá Post 1.1-12.
12.12 einn líkami, þannig er og Kristur: Kristur er höfuð kirkjunnar, sem er samfélag heilagra. Þeir eru allir einn líkami, því allir eiga þeir hlutdeild í hinu eina brauði og hinum eina bikar blessunarinnar (10.16,17).
12.13 Gyðingar eða Grikkir, þrælar: Í söfnuðinum í Korintu var fólk af öllu mögulegu tagi. Sjá “Heiðingjarnir” og “Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú“.
12.13 Í einum anda vorum við öll skírð: Sjá athugagrein við 1.13. Sá, sem hlaut skírn í Jesú nafni og handayfirlagningu, öðlaðist og gjöf andans og það jafnt fyrir því þótt nýr væri í trúnni (Post 4.8; 13.3,9.52; 19.5,6). Það er þetta, sem Páll á við þegar hann skrifar: “Öll fengum við einn anda að drekka.”
12.22 líkamanum: Þegar Páll ræðir um líkamann í þessum versum, á hann við líkama Krists. Limirnir eru safnaðarfólkið. Finni einn fyrir sársauka, kveinkar sér allur líkaminn. Og sé einn limur í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.
12.27 líkami Krists: Sjá athugagrein við 12.12.
12.28 Guð hefur gefið öllum sitt hlutverk: Sjá athugagrein við 12.1 (gáfur andans). Sjá og athugagreinar við 1.1 (postuli) og 12.10 (spámaður). Þeir, sem höfðu hlotið sérstaka náðargáfu til þess að kenna, gátu útskýrt ritningarnar og fagnaðarerindið um Jesú þannig, að áheyrendur fengu skilið það. Sjá athugagrein við 12.10 (tala tungum).