2.1 andi hans: Sjá athugagrein við 1.19.
2.6 Hann var í Guðs mynd: Þetta er og látið í ljósi í Jóh 1.1-18 og Kól 1.15-20. Höfundum Nýja testamentis og kirkjufeðrunum ber saman um að Jesús hafi verið sannur Guð og sannur maður (2.7). Sjá og “Sonur Guðs“. Fil 2.6-11 er líklega sálmur eða brot úr sálmi um Krist, sem Filippímenn hafa ef til vill kunnað.
2.7 þjóns mynd: Kristur hlýddi Guði skilyrðislaust eins og þjónn (þræll) hlýðir húsbónda sínum. Sjá nánar “Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú“.
2.8 dauðans á krossi: Jesús dó á krossi. Rómverjar tóku menn af lífi með því að festa þá upp á krosstré. Sjá “Krossfesting“.
2.11 Jesús Kristur er Drottinn: Þegar menn játuðu opinberlega, að Jesús Kristur væri Drottinn, báru þeir vitni þeirri trú sinni, að Jesús væri sannur Guð og þeir vildu hafa hann að leiðtoga lífs síns. Sjá og athugagreinar við 1.1 (Kristur Jesús) og 1.2 (Guði föður vorum…Drottni).
2.12 vinnið nú að sáluhjálp ykkar: Biblían hefur ýmis orð um þau hugtök, sem þýdd eru á íslensku með “sáluhjálp”, “frelsun” og “frelsari”. Öll merkja þau það, sem Guð hefur gert og heldur áfram að gera til þess að frelsa mennina frá lögmáli syndar og dauða. Sjá og “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“og “Eilíft líf“.
2.15 skínið…eins og ljós í heiminum: Í mörgum ritum Biblíunnar táknar “ljós” Guð og orð hans (Slm 119.105; 1Jóh 1.5), en einnig menn og málefni sem leiða í ljós sannleika Guðs (Jes 49.6). Lærisveinar Jesú eru stundum nefndir “börn ljóssins” (Jóh 12.36; Ef 5.8) og “ljós heimsins” (Matt 5.14-16).
2.16 á degi Krists: Sjá athugagrein við 1.6.
2.17 blóði mínu…fórnarþjónustu: Móselögmál bauð Gyðingaþjóð að bera fórnir fram fyrir Guð. Vatni eða víni var stundum dreypt á altarið þegar dýrum var fórnfært Drottni (2Kon 16.13). Páll segir trú á Guð og líf, sem lifað er í þjónustu við hann og meðbræðurna, vera Drottni velþóknanlega fórn (2.17). Og hann á fullt eins von á því að falla fyrir hendi mótstöðumanna sinna sakir Krists. Fari svo, mundi hann fagna þeim dauðdaga.
2.19 Tímóteus: Sjá athugagrein við 1.1 (Páll og Tímóteus).