Trúarhópur Essena hefur sennilega orðið til um líkt leyti og flokkur Saddúkea. Þeir gerðu enga tilraun til þess að verða ráðandi í trúmálum eða innan prestastéttar Ísraels. Þess í stað höfnuðu þeir mannfélagi gyðinga, rannsökuðu ritningarnar á leynifundum og skýrðu þær öðru vísi en aðrir. Essenum var því mjög uppsigað við prestana og aðra leiðtoga þjóðarinnar. En eins og farísear trúðu þeir á líf að loknu þessu.
Essenar bjuggu við gríðarlega reglufestu. Hver hópur þeirra hafði yfir sér foringja sem ákvað hverjir væru tækir í flokkinn. Þessi forkólfur sagði líka fyrir um hversu skipta skyldi fasteignum og lausfé á milli félaganna og kvað upp úrskurði ef risu greinir með mönnum um merkingu lögmálsins. Sumir fræðimenn hafa fyrir satt að bræðralagið við Dauðahafið hafi verið Essenar. Hvað sem um það er þá eru skoðanir Essena til vitnis um það hve mjög Gyðingar margir voru ósáttir við trúarleiðtoga sína. Bræðurnir í fjalllendinu við Dauðahafið bjuggu fjarri öðru fólki og sneru baki við mannfélagi Gyðinga. Árið 66 e. Kr. þrammaði rómverski herinn inn í landið til þess að stöðva upphlaup heimamanna og lagði um leið byggingarnar við Dauðahafið í rúst. Hægt er að lesa nánar um það í fræðslukaflanum „Fornleifafræðin og Biblían“.