Vera kann að megi rekja heiti þeirra til Zadoks, æðstaprests í Ísrael á dögum Davíðs konungs.  Líka er hugsanlegt, að Saddúkear hafi verið niðjar Zadókíta, en svo nefndust æðstuprestar sem lengi höfðu ráðið lögum og lofum í musterinu eða allt til annarrar aldar f. Kr., þegar fyrsti æðstipresturinn af ætt Makkabea, Jónatan, stökkti þeim á brott. Saddúkear hölluðu sér að presta-ættunum og létu eftir megni til sín taka í musterinu. Þeir urðu samverkamenn Rómverja þegar þeir hertóku Palestínu.  Gagnstætt faríseum vildu saddúkear ekkert með túlkun lögmálsins hafa, heldur kusu þeir að lesa það hreint og ómengað.   Þeir höfðu ekki heldur trú á því að dauðir væru reistir upp til lífs á ný (Mark. 12:18; Post. 23:8).  Saddúkear væntu þess að sitja áfram að auði og völdum með þjóð sinni svo lengi sem þeir hlýddu helstu fyrirmælum lögmálsins og féllu ekki úr náðinni hjá Rómverjum.  Flokkur þeirra þurrkaðist út eftir að uppreisn Gyðinga varð til þess að musterið var eyðilagt árið 70 e. Kr..