Höfundur Fyrra Pétursbréfs skrifar: „Þið sem áður voru ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“ (2.10). Lesið bréf hans til þess að komast á snoðir um tregann og gleðina, sem þeir eiga í vændum, sem fylgja Jesú.
Hver eru einkenni Fyrra Pétursbréfs?
Þetta rit Nýja testamentis er í búningi sendibréfs, þótt það sé miklu fremur ritgerð eða prédikun. Slík „tilskrif“ voru æði algengt bókmenntaform í veröld Grikkja og Rómverja. Fyrst og síðast er heilsað og kvatt (1.1,2; 5.12-14). Aðalstefin (1.3-5.11) eru að meginhluta hin sömu og í mörgum öðrum ritum Nýja testamentis, og eins er um stílinn. Dauða Jesú og upprisu er gert jafn hátt undir höfði og í guðspjöllunum. Rifjaðar eru upp kenningar Jesú um mikilvægi þess að treysta Guði, um hógværðina sem höfuðdyggð og um æðruleysi í þrengingum. Nöfn þeirra Péturs, Silvanusar og Markúsar, sem við minnumst úr Postulasögunni, eru nefnd. Það er dregin upp mynd af frumkirkjunni, þegar söfnuðurinn kom saman í heimahúsum. Í Fyrra Pétursbréfi eru hinir kristnu hvattir til þess að fylgja fordæmi Krists. Þeir eiga að lifa í guðsótta og góðum siðum. En þeim er líka sagt, eins og í bréfum Páls postula, að þeir megi búast við andstreymi og erfiðleikum. Ennfremur ræðir höfundur um fjölskyldulíf kristins manns og bróðurkærleikann safnaðarmanna í milli og minnir að því leyti á Fyrsta bréf Jóhannesar hið almenna. Og eins og í Hebreabréfinu er skrifað um það, að menn, sem óttast eða hata lærisveina Jesú, kunni að ofsækja þá og gera ræka úr mannfélaginu.
Hvers vegna var Fyrra Pétursbréf ritað?
Bréfið er ætlað Krists vinum (heiðing-kristnum) víðs vegar um norðanverða Litlu-Asíu (1.1). Höfundi er mikið í mun, að lesendur hans búi sig undir að þola illt fyrir trú sína (2.19-21; 3.13-15; 4.1,2,12-19; 5.9-11). En þjáningarnar eiga ekki síðasta orðið, af því að Jesús leið og dó til syndafyrirgefningar, og síðan reisti Guð hann upp frá dauðum. Kristnir menn eiga sér þá von, að verða á sama hátt reistir upp til nýs lífs, en það fyrirheiti er gjöf skírnarinnar. Önnur brýn umræðuefni í Fyrra Pétursbréfi eru eftirfarandi:
- Guð er í Jesú Kristi að skapa sér nýjan lýð (1.3-25; 3.4-12).
- Hinn nýi lýður Guðs (kirkjan) er kallaður til þess að lifa í heilagleika og verða heilög þjóð (1.13-2.17; 3.1-7; 4.1-11; 5.1-11).
- Hinn nýi lýður Guðs á að vera auðsveipur keisaranum í Róm og virða lög heimsveldisins (2.13-17), en umfram allt ber honum þó að heiðra Krist og hlýða Guði (3.15-17), og jafnt fyrir því þótt það leiði til andstreymis eða vinslita (4.1-4).
- Þeir, sem eru skírðir, eru frelsaðir og eiga þegar eilífa lífið með Kristi (3.21,22).
Nánar um Fyrra Pétursbréf
Bréfið hefur verið eignað Pétri, lærisveini Jesú (1.1), og hefur inni að halda kveðjur frá nánum samstarfsmönnum Páls postula, þeim Silvanusi og Markúsi (5.12,13; Post 15.37-40). Við nánari athugun kemur þó í ljós, að fiskimaður frá Galíleu hefur tæplega haft á valdi sínu það orðfæri menntamannsins og rismikinn stílinn, sem á bréfinu er (Mrk 1.16,17; 3.16). Fremur hefur bréfið verið kennt Pétri í virðingarskyni, eins og alsiða var í þennan tíma. Þar eð fjölyrt er um yfirstandandi þrengingar og jafnframt það mótlæti, er vænta megi í framtíð, má ætla að bréfið hafi verið ritað, þegar kristnir menn voru að falla í ónáð hjá rómversku yfirvöldunum. Fram að ríkisárum Dómitíanusar keisara (81-96 e. Kr.) höfðu Rómverjar látið hina kristnu í friði og talið þá vera part af gyðingdóminum, sem naut sérlegrar verndar þeirra. Undantekning frá þessu voru að vísu ofsóknir Nerós keisara á hendur söfnuði Krists í Rómaborg í kringum árið 64 e. Kr. En á stjórnarárum Dómitíanusar skildu leiðir sýnagógunnar og kirkjunnar, svo að ekki varð um villst. Þá tóku Rómverjar að hegna þeim, sem afsögðu að færa keisaranum fórnir, en hann hafði opinberlega verið lýstur guð. Sjá nánar „Rómverska heimsveldið“.
Fyrra Pétursbréf hefur og inni að halda brot af sálmum og játningatextum, sem hafðir hafa verið um hönd í guðsþjónustu þessa tíma (1.20; 2.21-25; 3.18-22). Þetta efni bregður birtu yfir líf og helgihald frumkirkjunnar.
Efnisyfirlit Fyrra Pétursbréfs.
- Vér erum af Guði útvalin, vernduð og frelsuð (1.1-12)
- Verið því heilög (1.13-3.22)
- Þjónið – og verið þolinmóð í þjáningunni allt til enda (4.1-5.14)