„Allt hefur sinn tíma“ segjum við oft og vitnum í Prédikarann. Lestu Lúkasarguðspjall með það í huga, að Guð sendi Jesú í heiminn á nákvæmlega réttum tíma.
Hver eru sérkenni Lúkasarguðspjalls?
Lúkasarguðspjall er fyrra bindi heildstæðs ritverks og Postulasagan hið síðara. Þetta sést greinilega á inngangsorðum beggja ritanna (Sjá Lúk 1.1-14 og Post 1.1-5). Fyrra bindið hermir frá ævi Jesú frá fæðingu og til uppstigningar hans til himna (Lúkas) og hið síðara segir frá því er fyrstu lærisveinarnir breiddu kenningar hans út og sögðu frá lífi hans og störfum (Postulasagan).
Til hvers var Lúkasarguðspjall ritað?
Höfundur Lúkasarguðspjall segir í upphafi ritsins: „Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu“ (1.3) af Jesú. Bókin er tileinkuð Þeófílusi nokkrum, vini höfundar eða stuðningsmanni.
Hver er efniviður Lúkasarguðspjalls?
Lúkasarguðspjall styðst að líkindum við þrjár aðalheimildir: 1) Markúsarguðspjall; 2) safn af ummælum Jesú, sem Matteus hefur líka haft aðgang að; og 3) sérefni Lúkasar, frásagnir sem ekki er að finna í neinu hinna guðspjallanna. Lúkas hefur trúlega ritað guðspjall sitt einhvern tíma á árunum eftir 70 e.Kr., en það ár bældu Rómverjar niður uppreisn Gyðinga og lögðu um leið Jerúsalemsborg í rúst og musterið með. Að þessu er vikið í Lúkas 19.43-44. Hvergi í Nýja testamenti er að finna eins nákvæma frásögn af fæðingu Jesú og í Lúkasarguðspjalli. Og Lúkas hefur líka varðveitt margar af þekktustu dæmisögum Jesú, ein og t.d. „Miskunnsama Samverjann“ (10.25-37), „Týnda sauðinn“ (15.1-7) og „Týnda soninn“ (15.11-32). Þá er Lúkas eini guðspjallamaðurinn sem kann að segja frá því er Jesús heimsótti Sakkeus, tollheimtumanninn fyrirlitna (19.1-10), og orðum Jesú við ræningjann á krossinum: „Í dag skalt þú vera með mér í Paradís“ (29.39-43).
Alveg eins og Postulasagan, ræðir Lúkasarguðspjall oft um heilagan anda Guðs (1.15,35; 4.1,14,18; 10.21; 11.13). Af guðspjalli Lúkasar er líka ljóst hve iðulega Jesús bað til Guðs (3.21; 6.12; 9.18 og 23.34,46). Í guðspjallinu eru og þrjár dæmisögur hans um bænina (11.5-9; 18.1-8, 9-14).
Umhyggja Jesú fyrir fátækum fer ekki fram hjá neinum, sem guðspjallið les. Fátækum er fluttur gleðilegur boðskapur (4.18; 7.22); fátækir eru sagðir sælir (6.20); fátækum er boðið til veislu (14.13-21); fátækur maður að nafni Lazarus er borinn af englum inn í himnaríki (16.20,22) og fátækum skulu lærisveinar Jesú gefa ölmusu, er þeir hafa selt eigur sínar (12.33).
Höfundur Lúkasarguðspjalls og Postulasögunnar hefur um aldir verið talinn samstarfsmaður Páls postula og ferðafélagi, læknirinn Lúkas (Fílm 24. vers; Kól 4.14). Efnistök og framsetning í ritum hans minnir mjög á gríska og rómverska söguritara þessa tíma. Margir telja, að hann hafi ekki verið Gyðingur og ekki búsettur í Júdeu, heldur hafi hann ætlað rit sitt heiðnum lesendum (sjá „Heiðingjarnir“ í orðtakasafni). Eitt höfuðþema Lúkasarguðspjalls rennir stoðum undir þetta álit: Guð sendi Jesú til þess að frelsa alla menn, jafnt Gyðinga sem heiðingja.
Hver er efnisskipan Lúkasarguðspjalls?
Lauslegt efnisyfirlit, sem hér fylgir, sýnir hversu Lúksarguðspjall rekur meginviðburði á starfsferli Jesú og getur þess einnig, hvar atburðirnir áttu sér stað:
- Koma Jesú undirbúin (1.1 – 4.13)
- Inngangsorð: Tilgangur Lúkasar með ritun verksins (1.1-4)
- Tvær undursamlegar fæðingar (1.5 – 2.21)
- Bernska Jesú (2.22-52)
- Jesús er sonur Guðs (3.1 – 4.13)
- Jesús prédikar og læknar í Galíleu (4.14-9.50)
- Jesús er misvel liðinn (4.14-37)
- Jesús læknar marga og kallar lærisveina sína (4.38-5.32)
- Starfinu haldið áfram í Galíleu (5.33-9.17)
- Hver er Jesús og hvað bíður hans? (9.18-50)
- Jesús fer upp til Jerúsalem (9.51-19.27)
- Meðhaldsmenn og vantrúaðir (9.51-10.42)
- Jesús kennir (11.1-12.59)
- Um Guðs ríki (13.1-14.35)
- Hið týnda fundið (15.1-32)
- Góðir og trúir þjónar (16.1-19.27)
- Síðustu dagar Jesú í Jerúsalem ( 19.28-23.56)
- Jesús kennir í Jerúsalem (19.28-21.38)
- Réttarhöld, dómur og krossfesting (22.1-23.56)
- Jesús er reistur upp frá dauðum og birtist lærisveinum sínum (24.1-53)