Hvernig geta kristnir menn styrkt þá sem fara um og útbreiða fagnaðarerindið? Svarið við spurningunni er að finna í Þriðja bréfi Jóhannesar.
Hvað einkennir Þriðja Jóhannesarbréf?
Þetta stutta rit er í sendibréfsformi, eins og Annað Jóhannesarbréf. Það hefst á ávarpi og því lýkur með kveðjum. En það er hins vegar stílað á Gajus nokkurn.
Hvert var tilefni bréfsins?
Bréfritari óskar Gajusi allra heilla. Hann fagnar fréttum af því, hve góðan beina hann hefur unnið þeim sem ferðast um og útbreiða fagnaðarerindið, og greitt vel för þeirra, og það jafnvel þótt sumir þeirra hafi verið Gajusi með öllu ókunnir. En maður að nafni Díótrefes, einn leiðtoga safnaðarins, setur sig upp á móti öldunginum, sem bréfið skrifar. Hann tekur ekki á móti aðvífandi bræðrum og hvetur meira að segja aðra til þess að gera það ekki heldur. Gajus er beðinn að halda uppteknum hætti, án tillits til þess sem Díótrefes gerir.
Nánar um bréfið
Sjá inngangsorð að Fyrsta Jóhannesarbréfi hinu almenna og Öðru Jóhannesarbréfi.
Efnisyfirlit Þriðja Jóhannesarbréfs
- Kveðja (1. til 4. vers)
- Samverkamenn sannleikans studdir (5. til 15. vers)