Oft trúum við því frekar og skiljum það betur, sem við heyrum oftar en einu sinni. Í þessu stutta bréfi ítrekar Páll margt af því, sem hann skrifaði í Fyrra Þessaloníkubréfi sínu.

Hver eru séreinkenni Síðara bréfs Páls til Þessaloníkumanna?

Alveg eins og í Fyrra Þessaloníkubréfi þakkar Páll Guði fyrir það, að hinir kristnu í Þessaloníku skuli hafa haldið áfram að styrkjast í trúnni og kærleikanum, þrátt fyrir alla erfiðleika og þrengingar, sem þeir hafa mátt þola. Hann ítrekar, að trú þeirra sé orðin öðrum söfnuðum til fyrirmyndar. Þá fjallar hann um endurkomu Krists og hvernig beri að undirbúa sig undir hana.

Tilefni bréfsins

Sumir safnaðarmönnum mislíkaði, að því skyldi haldið fram að Kristur væri þegar kominn aftur, en þeir hefðu misst af honum. En Páll segir þeim að bíða og vera þolinmóðir; endurkoman muni ekki fara leynt, enda verði hún ekki nema „fráhvarfið komi fyrst og…sonur glötunarinnar.“ Þá verða þau „öll dæmd sem trúðu ekki sannleikanum en höfðu velþóknun á ranglætinu“ (2.12), en útvaldir munu frelsast (2.13). Þessaloníkumenn eru hvattir til þess að biðja fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins (3.1-5), gefa gaum að kenningum Páls og forðast leti og iðjuleysi (3.6-13).

Nánar um bréfið

Þetta bréf er trúlega ritað skömmu eftir Fyrra Þessaloníkubréf (sjá innganginn að því). Þótt trú og kærleikur safnaðarmanna í Þessaloníku væri til fyrirmyndar, höfðu sumir þeirra látið blekkjast af villukenningum um endurkomu Krists (2.1-5). Bréfritari ræðir endurkomuna nánar og sigur Drottins á „hinum vonda.“ Í lokin minnir hann lesendur sína á, að þótt búast megi við því að Jesús komi aftur áður en langt um líður, þá sé það engin afsökun fyrir því að hætta að vinna.

Sumir fræðimenn telja, að einhver af lærisveinum Páls hafi ritað Síðara Þessaloníkubréf, eftir að hann var allur. Ekki var óalgengt til forna, að lærisveinn heiðraði meistara sinn með því að skrifa í nafni hans.

Efnisyfirlit Síðara Þessaloníkubréfs

  • Sannleikurinn um endurkomu Krists (1.1-2.17)
  • Bænir og varnaðarorð (3.1-18)