Kristur Jesús kom í heiminn honum til frelsunar og til þess að útvelja sér eignarlýð. Hann mun aftur koma einn dag í framtíð og þá mun börnum hans veitast inngangur í hið eilífa dýrðarríki Drottins. Lesum Síðara Pétursbréf og komumst að því hvernig kristnum ber að lifa á meðan þeir bíða.

Hver eru einkenni Síðara Pétursbréfs?

Höfundur Síðara Pétursbréfs byrjar á því að heilsa lesendum sínum samkvæmt hefð og venju (1.1,2). En rit hans er í raun hinsta kveðja Péturs postula fremur en sendibréf. Postulinn veit, að hann á skammt eftir ólifað (1.14) og vill því áminna hina kristnu í síðasta sinn og ráða þeim heilt. Bréfið er að því leyti líkt sumum kveðjuræðum öðrum í Biblíunni (Mrk 13; Jóh 13-17; Post 20.17-35; Jós 23,24).

Þótt í bréfinu sé að finna hollráð og leiðsögn á komandi dögum (1.12-15; 3.1,2), þá er einnig fjallað um spurningar, sem hvíla þungt á lesendunum á yfirstandandi tíð (2.10-22; 3.8,9). Bréfið, sem fjallar um endurkomu Krists, er að kalla má nær alveg samhljóða Júdasarbréfi. Það er ekki vitað með vissu, hver skrifaði það, né heldur hvenær það var skrifað.

Hvers vegna var Síðara Pétursbréf skrifað?

Bréfritari varar við falsspámönnum og falskennendum, sem halda fram hættulegum villukenningum, leiða menn afvega og grafa undan trúnni. Við slíku skulu kristnir menn bregðast með því að sýna trú sína í verki og lifa heilögu og guðrækilegu lífi, flekklausir og vammlausir. Þeir eiga ekki að hvika frá sannleikanum, sem er þekkingin á Jesú Kristi (1.3; 1.12). Hann fullvissar lesendur sína um endurkomu Krists, enda þótt hún hafi ekki orðið jafnskjótt og sumir bjuggust við (3.4). En söfnuðurinn á að vænta hennar í þolinmæði og hlýðni og kappkosta að lifa heilögu og guðrækilegu lífi, á meðan beðið er dags Drottins (3.14).

Nánar um Síðara Pétursbréf

Bréfritarinn kveðst vera Pétur postuli sjálfur (1.1,2), og hafi hann orðið vitni að því þegar Jesús ummyndaðist á fjallinu og opinberaði dýrð sína (sjá 1.17,18; Mrk 9.2-8; Matt 17.1-9). Flestir nýjatestamentisfræðingar hallast samt frekar að því, að höfundur bréfsins verið lærisveinn Péturs og hafi hann skrifað það einhvern tíma eftir að Pétur var allur og kennt það meistara sínum í heiðursskyni, en líka til þess að halda uppi vörnum fyrir kenningar hans og postulanna frammi fyrir nýjum andstæðingum. Lítum á eftirfarandi, sem mælir því í móti, að Pétur postuli sé höfundur bréfsins:

  1. Stíllinn á bréfinu líkist meira málfari grískra menntamanna á annarri öldinni en fundið verður á nokkru öðru riti Nýja testamentis. Pétur postuli var aftur á móti óskólagenginn fiskimaður frá Galíleu og dó að líkindum í Rómaborg í kringum árið 65 e.Kr.
  2. Höfundur ræðir um bréf Páls postula eins og þau séu þegar orðin helgirit í frumkirkjunni (3.15,16). Þegar aðrir höfundar Nýja testamentis minnast á „ritningar“ eiga þeir við Helgiritasafn Gyðinga (Gamla testamenti), sem var Biblía Jesú og lærisveina hans, áður en rit Nýja testamentis urðu til. Talið er, að Páll postuli hafi dáið um líkt leyti og Pétur og ólíklegt er, að bréf hans hafi orðið „kanonísk“, þ.e. tekin í helgiritasafn hinna kristnu safnaða, fyrr en nokkrum árum eftir dauða hans. (Gríska orðið kanon þýðir mælistika).
  3. Í mörgum bréfum Nýja testamentis er endurkomu Krists vænst fljótlega og með tilhlökkun (Fil 1.20; 2.16; 3.20,21; 1Þess 4.13-18). En í Síðara Pétursbréfi er svo að sjá, að endurkoman hafi dregist á langinn, og þer ræðir um falskennara, sem draga dár að hinum kristnu fyrir að vonast eftir endurkomunni, og segja: „Síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar“ (3.4). Pétur heyrði til fyrstu kynslóð safnaðarleiðtoga, sem vænti endurkomunnar innan skamms. En höfundur bréfsins brýnir fyrir lesendum sínum að bíða þolinmóðir og missa ekki vonina um endurkomu Krists, enda verði Drottinn ekki seinn á sér að efna fyrirheitið (3.9). Vitað er, að þetta vandamál var ekki ofarlega á baugi, þegar Pétur var á dögum.
  4. Við samanburð kemur í ljós, að höfundur Síðara Pétursbréfs hefur tekið mikið af efni Júdasarbréfs traustataki og fellt inn í rit sitt (2Pét 2.1-3.3; Júd 4-19). Þar eð Júdasarbréf er með yngstu ritum Nýja testamentis, má af þessu ljóst vera, að Síðara Pétursbréf er enn yngra; það hefur verið greinilega skrifað eftir að Júdasarbréf var fest á blað.

Efnisyfirlit Síðara Pétursbréfs

Bréfið byrjar með því að kristnum mönnum er heilsað stuttlega (1.1,2), en án frekari utanáskriftar. Í lokin eru blessunarorð, en ekki beinar kveðjur (3.18). Efnisyfirlitið er þannig:

  • Verið Guði þóknanleg og hvikið ekki frá sannleikanum (1.1-21)
  • Varist falsspámenn og falskennendur (2.1-22)
  • Vakið, því að endurkomu Drottins er ekki langt að bíða (3.1-8)